Það er algjör óþarfi að vera með leiðindi við starfsfólk sundlauga sem er að vinna vinnuna sína og benda fólki á að forðast hópamyndanir í heitum pottum.
Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns á upplýsingafundi almannavarna en lögreglan á Akureyri bannaði starfsmönnum Sundlaugar Akureyrar að hleypa fleiri gestum í laugina í gær eftir að í ljós kom að tveggja metra reglan var virt að vettugi á ákveðnum stöðum í lauginni.
Samkvæmt sóttvarnareglum hefur laugin leyfi til að taka við ákveðið mörgum gestum og var fjöldi þeirra undir hámarksfjölda þegar lögreglu bar að garði.
Gestirnir leituðu þó margir í sömu staðina í lauginni, aðallega heitu pottana, og var tveggja metra reglan því virt að vettugi.
Víðir beindi því enn fremur til fólks að ferðast ekki út fyrir landsteinana næstu vikurnar. Verið væri að herða tökin í löndunum í kringum okkur og dæmi væru um að erfitt hefði verið fyrir Íslendinga að komast aftur heim.