Rússum sýnd tortryggni fyrir fram

Árni Þór Sigurðsson sendiherra segir ástandið vera almennt rólegt í …
Árni Þór Sigurðsson sendiherra segir ástandið vera almennt rólegt í Moskvu. Ómar Óskarsson

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, segir að nýuppkveðinn dómur yfir Al­ex­ei Navalní muni líklega lita samskipti Rússlands og vesturveldanna og að Rússar fylgist grannt með umræðunni sem fram fer utan landsins.

„Rússnesk yfirvöld hlusta alveg, þau heyra alveg hvað er sagt. Hvort það hafi svo áhrif á þau er annað mál,“ segir Árni Þór í samtali við mbl.is.

„Svona lagað litar alltaf samskipti ríkja að einhverju leyti vegna þess að mál af þessum toga er tekið upp í samtölum ráðamanna.“

Rússneskur dómstóll dæmdi stjórnarandstæðinginn Alexei Navalní til að afplána tvö ár og átta mánuði af fangelsisvist sem áður var skilorðsbundin, en hann var sakaður um að hafa rofið skilorðið.

Rólegt í höfuðborginni

Stuðningsmenn Navalnís mótmæltu víðs vegar um Rússland í gær, og voru um 1.400 mótmælendur handteknir. Samtals hafa 10.000 manns verið handteknir um allt landið í mótmælabylgjunni sem varað hefur í rúma viku.

Árni Þór segir þó ástandið vera rólegt í höfuðborginni.

„Þessi mótmæli voru bundin við ákveðna staði og ákveðinn hóp sem mætti þar en nú er hann farinn og sumir þeirra hafa verið handteknir,“ segir hann. „Svo það er í sjálfu sér ekkert meira að gerast núna í augnablikinu.“

Hann segist þó hafa séð í fjölmiðlum að óeirðalögregla hafi verið kölluð til og að mótmælendur hafi sumir verið handteknir um leið og þeir mættu á mótmælasvæðin í borginni.

„Svo stjórnvöld bregðast býsna harkalega við.“

Mótmælin séu þó ekkert sérstaklega stór miðað við fyrri ár.

„Fyrir þremur árum síðan voru miklu, miklu meiri mótmæli hér. Þá var talið að það væru um 100 þúsund mótmælendur á götum úti. Og það var einmitt líka í kjölfar hvatninga frá Navalní,“ segir hann.

„Menn hafa séð mun fjölmennari mótmæli hér.“

Dómurinn fordæmdur

Ráðamenn á Vesturlöndum keppast nú um að fordæma dóminn sem féll yfir Navalní, flestir þeirra fyrir Evrópusambandið og Bandaríkin. Þá hefur Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tjáð sig um málið, en hann segir aldrei hægt að réttlæta fangelsun á pólitískum andstæðingum og að dómurinn minni á óhugnanlega fortíð. Hann biðlar til rússneskra yfirvalda að leysa Navalní, og saklausa mótmælendur, úr haldi undir eins.

Aðspurður segir Árni Þór ólíklegt að mótmælaölduna fari að lægja á næstunni.

„Það er erfitt að segja til um það, en það er ekkert svo líklegt. Verjendur hans hafa sagt að þeir muni áfrýja þessum dómi, jafnvel til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg,“ segir hann.

„Svo málið er langt frá því að vera búið.“

Tortryggni vesturveldanna gagnvart Rússlandi

Rússneska bóluefnið Spútnik V hefur verið nokkuð í umræðunni síðan því var veitt samþykki af rússneska ríkinu í ágúst 2020, fyrst allra bóluefna í heiminum. Dreifing á því hófst í desember, en lítið var vitað um efnið á þeim tíma og var því mætt með nokkurri tortryggni á Vesturlöndum.

Nýjustu rannsóknir óháðra sérfræðinga sýna hins vegar að efnið virðist hafa um 91,6% virkni gegn kórónuveirunni, og hafa vísindamenn í Rússlandi lýst þeirri niðurstöðu sem miklum sigri.

Árni Þór telur þá tortryggni sem vesturveldin sýndu bóluefninu byggjast að einhverju leyti á fordómum.

„Ég hef þá kenningu að það sé ákveðin fyrirframtortryggni á Vesturlöndum gagnvart öllu sem frá Rússum kemur, sérstaklega ef það kemur frá stjórnvöldum,“ segir hann.

„Mönnum fannst kannski grunsamlegt að þeir væru komnir langt, eða farnir að bólusetja snemma, en á móti kemur að Rússar eiga auðvitað fullt af fínum vísindamönnum. Svo það ætti í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart að þeir geti þróað bóluefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert