Bjartsýn á stjórnarskrárbreytingar

Katrín Jakobsdóttir - forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir - forsætisráðherra. Árni Sæberg

„Ég væri ekki að leggja þetta fram nema ég hefði trú á því að þetta gæti náðst. Ég er auðvitað ekki ein á Alþingi og nú er komið að því hvort fólk vilji raunverulega láta á það reyna að ná fram breytingum á stjórnarskrá,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Hún segist bjartsýn á að stjórnarskrárbreytingar muni nást í gegn fyrir þinglok. Fyrstu umræðu lauk ekki. Katrín telur hins vegar að umræður hafi verið góðar og telur hún ríkan stuðning fyrir breytingum á ákvæðum um umhverfis og náttúruverndarákvæði og um tungu og táknmál. „Það er því ekki réttmætt að segja að allar þessar breytingar séu umdeildar,“ segir Katrín.

Fyrstu umræðu um málið mun ljúka í næstu viku áður en það fer til meðferðar hjá stjórnskipunar og eftirlitsnefnd.

Mun leiða fram hvort fólk vilji breytingar

Katrín segir ljóst að auðlindaákvæðið sé umdeildast. „Auðvitað veit ég það við erum ekki öll á eitt sátt og við erum búin að nota gríðarlegan tíma í að ræða fyrri atlögur og ferli breytinga á stjórnarskrá. Hér erum við hins vegar fram komin með tillögur sem búið er að vanda mjög vel til verka með. Okkur er ekkert að vanbúnaði að eiga þessa efnislegu umræðu og leiða það fram hvort fólk vill breytingar eða ekki,“ segir Katrín.

Hvað er þjóðareign?

Margir hafa mestan áhuga á auðlindaákvæðinu. Telur þú að við munum einhvern tímann hafa sameiginlegan skilning á orðinu þjóðareign? „Það er áhugavert hve lítill hluti umræðunnar fór í það en þess meiri í útfærslur á gjaldtöku og hver skilningur var á orðinu varanlegt,“ segir Katrín.  

Hún telur þjóðareign vel skilgreint hugtak í frumvarpinu. „Skilgreiningin er í anda þess sem rætt hefur verið. Hvort sem um er að ræða stjórnmálamenn af hægri eða vinstri væng stjórnmálanna. Að auðlindir séu í þjóðareign sem skilgreind er með þeim hætti að um sé að ræða nýtt eignarréttarform sem er ekki algjörlega sambærilegt einkaeignarétt," segir Katrín.

Hún telur að hugtakið þjóðareign sé um margt skýrara en áður hefur verið. „Við erum búin að leggja mikið á okkur til að ná utan um þetta hugtak. Miðað við það hvað þetta er búið er að vera í mörgum stjórnarsáttmálum margra ríkisstjórna ólíkra flokka, þá finnst mér Alþingi og flokkarnir sem þar eru ættu að geta náð saman um þetta mál,“ segir Katrín. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert