Eitt kórónuveirusmit greindist innanlands í gær og var viðkomandi í sóttkví. Nú eru 33 í einangrun og 24 í sóttkví. Þetta þýðir að tveir hafa greinst með Covid-19 innanlands í febrúar. 13 eru á sjúkrahúsi en aðeins einn þeirra er með virkt smit. 824 eru í skimunarsóttkví.
Tveir greindust með virkt smit á landamærunum en tveir voru með mótefni. Einn bíður niðurstöðu mótefnamælingar. Í gær var eitt smit í bið á landamærunum en nú hefur komið í ljós að viðkomandi var með virkt Covid-19 smit.
Nýgengi innanlands á hverja 100 þúsund íbúa er nú 3,8 og á 7,1 á landamærunum.
Af þeim 33 sem eru með virkt smit eru 24 til húsa á höfuðborgarsvæðinu, fjórir á Suðurnesjum og tveir á Suðurlandi. Einn er á Norðurlandi eystra og einn á Vesturlandi. Einn er óstaðsettur í hús.
Aðeins fimm í aldurshópnum 18-29 ára eru nú með virkt smit en 10 á fertugsaldri. Þrjú börn eru með Covid-19 og sjö einstaklingar á sextugsaldri en þrír á sjötugsaldri.
Í gær voru tekin 747 sýni innanlands en 554 á landamærunum.