Fjölmiðlafrumvarp verði lagt til hliðar

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum.
Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum. mbl.is/​Hari

Síminn er mótfallinn nýju fjölmiðlafrumvarpi Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, og vill að það verði lagt til hliðar.

Fyrirtækið vill frekar að Alþingi beini ríkisstuðningi til fjölmiðla sem sinni þýðingum á efni. Núverandi fyrirkomulag laganna leiði til þess að innlendir aðilar með þýðingarskyldu séu í mun verri stöðu en erlendir aðilar á borð við Disney sem hafi ekki slíka skyldu.

„Það er álit Símans að frumvarpið eins og það liggur fyrir flæki samkeppnismarkað að óþörfu og geti jafnvel valdið enn meiri skekkju en nú er til staðar vegna umsvifa ríkisins. Fjölmiðlamarkaður verður ekki eðlilegur fyrr en löggjafinn kemur böndum á fílinn í herberginu, Ríkisútvarpið,“ segir í niðurstöðu umsagnar Magnúsar Ragnarssonar, framkvæmdastjóra hjá Símanum, um frumvarpið.

Fram kemur í umsögninni að Síminn telji fullt tilefni til að vara við samþykkt frumvarpsins. Mat félagsins sé að það muni frekar auka samkeppnisleg mál á markaði heldur en að leysa þau.

„Síminn telur það vera augljóst að tilgangur frumvarpsins sé  að bæta einkaaðilum það tjón sem skapast vegna tilveru Ríkisútvarpsins á markaði vegna  auglýsingasölu. Eina leiðin til þess að lagfæra þá stöðu er að ríkisfyrirtækið hætti starfsemi á einkamarkaði. Það að gera fleiri miðla einnig háða ríkisstuðning leysir engin vandamál.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert