„Ég er reyndar búinn að fá margar orðsendingar þess efnis hvort honum sé stætt í starfi sem forseti Hæstaréttar. Ef marka má venjuleg viðbrögð hér á landi er eins og yfirvöld dómsmála séu svo liðónýt að það sé ekki brugðist við svona. Auðvitað hljóta þetta að vera alvarleg tíðindi,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson í samtali við mbl.is vegna nýfallins dóms í Hæstarétti í dag.
Jón Steinar, fyrrverandi hæstaréttardómari, lagði í dag Benedikt Bogason, forseta Hæstaréttar, í Hæstarétti. Jón Steinar var sýknaður af kæru Benedikts um meiðyrði á þriðja dómstiginu í máli sem teygir sig aftur til ársins 2012.
„Þegar forseti Hæstaréttar fer í mál við mann sem var að gera hvað? Hann var að gagnrýna dóm réttarins í máli sem þessi dómari hafði átt sæti í,“ segir Jón Steinar um tilefni kærunnar og heldur áfram.
„Og gerði það, jú jú gott og vel, það er sagt í forsendunum að gagnrýnin hafi verið hvöss, m.a. fólst gagnrýnin í að maðurinn var sakfelldur fyrir annað en hann var ákærður fyrir. Einhvern tímann hefði einhver áttað sig á því að það væri eitthvað athugavert við það.
Þetta eru efnisatriði og Benedikt var ekkert þar sérstaklega til umræðu, frekar en aðrir dómarar sem dæmdu. Hann var nefndur í lok kaflans þar sem er sagt hvaða dómarar höfðu staðið að þessum dómi. Hann rýkur í mál við mig út af þessu. Ég tel sjálfur og hef sagt það áður að það er ótrúlegt dómgreindarleysi hjá manni sem núna situr í sæti forseta Hæstaréttar að gera það.“
Hvaða þýðingu hefur þessi niðurstaða fyrir tjáningarfrelsið?
„Já sem betur fer þá held ég nú að niðurstaðan eins og hún er og er búin að vera á öllum dómstigum og ég vek athygli á því að það er kannski bara sérstaklega þýðingarmikið að menn hafi frelsi til þess að gagnrýna dómaraverk dómstólanna og þá einkum Hæstaréttar vegna þess að það er eina aðhaldið sem þessar ríkisstofnanir fá. Við erum með handhafa framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og þau þurfa að sækja endurnýjað umboð með reglubundnum fresti en það þurfa dómarar ekki að gera. Þeir eru æviskipaðir og það eina aðhald sem við getum veitt þeim er að fjalla um verk þeirra á gagnrýninn hátt.
Þess vegna eru þetta náttúrulega ánægjuleg tíðindi, það hefðu satt að segja verið tíðindi að mínu mati fyrir þjóðina ef ég hefði verið dæmdur í þessu máli. [...] Ekki bara fyrir mig, ég skipti ekki máli í því samhengi, heldur fyrir táningarfrelsið í landinu. Þannig að við fögnum því að meirihluti dómsins skyldi koma þessu svona í land.“
Jón Steinar segir að þessi dómur sé sá fyrsti af þessum toga hér á landi, að fyrrverandi dómari sem gagnrýnir dóm sé dreginn fyrir öll dómstig landsins. Aðspurður hvers vegna hann telji að Benedikt hafi lagt í þessa vegferð gegn honum segir Jón Steinar Benedikt bera kala til hans vegna eldri samskipta. „Kannski hefur það hvatt hann til einhverra fljótfærnislegra viðbragða í þessu máli, ég get auðvitað ekki svarað því. Þetta var auðvitað mikill flumbrugangur og dómgreindarleysi.“
Það hefur enginn tjáð sig um störf Hæstaréttar eins og þú hefur gert, er það?
„Ég hugsa að það megi segja að það sé rétt. Það eru að vísu svo sem margir sem hafa tjáð sig um störf Hæstaréttar en því miður hafa menn setið mjög á sér við að færa fram réttmæta gagnrýni á þau störf. Vegna þess að þeim hefur oft verið ábótavant. En ég hef oft gert það.“
Er fólki óhætt að tjá sig um störf Hæstaréttar með meira afgerandi hætti en hingað til hefur tíðkast?
„Já ég myndi vona að það væri. Að því leyti er kannski gott að hann fór í þetta mál. Hann hefur þá stuðlað að því að hvetja menn til dáða að gagnrýna réttinn.“
Málið sem um ræðir er að mörgu sérstakt þar sem fyrrverandi hæstaréttardómari og núverandi hæstaréttarlögmaður, og forseti Hæstaréttar tókust á fyrir Hæstarétti. Um flækjustig þessa máls fullyrðir Jón Steinar að dómararnir sem dæmdu í málinu séu undir miklum þrýstingi frá þeim sem fara með völdin í dómskerfinu.
Þá fullyrðir Jón Steinar að ekki nokkur annar Íslendingur gæti fengið málskostnað niðurfelldan í máli sem þessu. Sem tekið hefur verið fyrir á þremur dómstigum og dæmt á sömu forsendum í öllum tilvikum.