Skelfingu lostinn ferðamaður sýknaður

Húsbílnum var lagt við Grindavíkurveg.
Húsbílnum var lagt við Grindavíkurveg. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði í dag þýskan ferðamann á þrítugsaldri af ákæru um sérstaklega hættulega líkamsárás. Maðurinn var sakaður um að hafa aðfaranótt 24. febrúar í fyrra stungið hníf í hönd manns sem reyndi að brjótast inn í húsbíl ferðamannsins þar sem honum var lagt við Grindavíkurveg.

Í dómnum kemur fram að lögreglu hafi borist tilkynning um vopnað rán klukkan þrjú um nótt aðfaranótt 24. febrúar í fyrra. Að sögn kærustu þýska ferðamannsins hafði karlmaður brotið rúðu í húsbílnum en við það vaknaði maðurinn og skar hann með hníf. Sá sem var skorinn hlaut við það sjö sentimetra djúpan skurð á upphandlegg.

Þýski maðurinn sagði fyrir dómi að háttsemi hans væri rétt lýst í ákæru en sagðist hafa lagt til mannsins með hnífnum í sjálfsvörn og væri þar af leiðandi saklaus af líkamsárás.

„Eins og fangar í búri“

Hann hafi hrokkið upp þegar farþegarúðan í framhluta húsbílsins splundraðist, orðið skelfingu lostinn og óttast um líf sitt og kærustu sinnar. Þau hafi öskrað á viðkomandi að koma sér á brott en sá varð ekki við því.

Því hafi ferðamaðurinn gripið til þess fyrsta sem hann fann, vasahnífs, og stungið þann sem var kominn inn í bílinn. Maðurinn sagði að eina útgönguleiðin úr húsbílnum hafi verið gegnum dyrnar að framanverðu og þau því verið „eins og fangar í búri“ þegar ráðist var til atlögu að bílnum.

Maðurinn sem reyndi að brjótast inn í húsbílinn og var stunginn sagðist hafa rætt við þýska manninn kvöldið áður. Um miðja nótt hafi hann séð hreyfingu inni í húsbílnum og ætlað að ræða við parið.

Hann hafi haldið á vasaljósi, runnið í hálku og dottið með vasaljósið þannig að rúða á húsbílnum splundraðist. Í framhaldi hafi hann fengið sting í upphandlegginn og hraðað sér á brott.

Í niðurstöðu dómsins kemur meðal annars fram að við þessar sérstöku aðstæður, þar sem ráðist var á húsbílinn, séu það ekki talin óeðlileg viðbrögð að þýski ferðamaðurinn hafi gripið til þess næsta sem hann fann og beitt gegn þeim sem braust inn; sjálfum sér og kærustu til varnar.

Þýski maðurinn er því sýknaður og bótakröfu mannsins sem braust inn í húsbílinn vísað frá dómi.

Dómurinn í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka