Tveir hermenn eru með fasta viðveru á Íslandi. Annar er hermálafulltrúi Bandaríkjanna og starfar í bandaríska sendiráðinu. Hinn er norskur tengiliður NATO og Noregs á Íslandi. Hann er með vinnuaðstöðu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
Þetta kom fram í svari utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni þingmanni. Ráðuneytið telur að föst viðvera herliðs hér á landi feli í sér fasta búsetu sömu einstaklinga á ársgrundvelli eins og átti við um varnarliðið sem var hér með fasta viðveru til ársins 2006.
Dagleg viðvera yfir lengri tíma felur í sér tímabundna dvöl mismunandi einstaklinga sem tengjast tímabundnum verkefnum, að mati ráðuneytisins. Loftrýmisgæsla er algengasta dæmið um slík verkefni. Viðvera hennar vegna miðast yfirleitt við 4-8 vikur í senn. Fámennur hópur getur dvalið lengur við kafbátaeftirlit eða í allt að sex mánuði sem er hámarksdvöl kafbátaeftirlitssveita í Evrópu. Hermennirnir koma án fjölskyldna og dvelja í skammtímagistingu.