Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, hefur ákveðið að gefa kost á sér í forvali Vinstri grænna í Suðurkjördæmi vegna alþingiskosninganna í haust.
Þetta kemur fram í myndskeiði sem Róbert birtir á Facebook-síðu sinni í dag.
Róbert bauð sig fram og var kosinn á þing fyrir Samfylkinguna 2009 en sagði sig úr flokknum í október 2012 og var utan flokka fram að kosningum 2013.
Hann var svo þingmaður Bjartrar framtíðar frá 2013 til 2016 en gaf ekki kost á sér í kosningunum haustið 2016.
Hann starfaði við fjölmiðla um árabil og var aðstoðarmaður samgönguráðherra áður en hann settist á þing árið 2009. Róbert er fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands og var um tíma forstöðumaður fréttasviðs 365. Hann stundaði fiskvinnslu, netagerð og sjómennsku í Vestmannaeyjum og er stúdent frá framhaldsskólanum þar. Á þingi gegndi hann m.a. þingflokksformennsku, formennsku í allsherjarnefnd, formennsku í Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og sat í umhverfis- og samgöngunefnd, Þingvallanefnd og Norðurlandaráði.