„Hver er að biðja um að þetta opni aftur?“ spyr Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn. Heimilt verður að opna spilasali með spilakössum á morgun þegar ýmsar tilslakanir sóttvarnalaga taka gildi.
Samtökin opnuðu á föstudag vefsíðuna lokum.is en þar er hvatt til þess að sölunum verði lokað fyrir fullt og allt.
Alma bendir á að heilbrigðisyfirvöld fari afar varlega í að opna ýmsa starfsemi aftur og bendir til að mynda á að þrýst hafi verið á opnun kráa og líkamsræktarstöðva. Enginn hafi þrýst á opnun spilasala.
„Það hefur enginn komið opinberlega fram og lýst því yfir að það sé nauðsynlegt að opna spilakassa,“ segir Alma og heldur áfram:
„Spilafíklar hafa stigið fram og beðið um að þeir verði ekki opnaðir aftur.“
Íslandsspil eru í eigu Rauða krossins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar en Alma skilur skki af hverju heilbrigðisyfirvöld settu opnun spilasala á oddinn.
Aðspurð segir hún að spilafíklar séu gríðarlega stressaðir út af morgundeginum. „Aðstandendum er verulega brugðið,“ segir Alma og bendir á reynslusögu aðstandanda spilafíkils af vefsíðunni lokum.is.
Þar segir frá konu sem á barn með spilafíkli en tveimur árum eftir að þau hófu að búa saman var sambandið komið á endastöð vegna spilafíknar, lyga og blekkinga, eins og segir á síðunni.
„Þessi heimur er ekkert skemmtilegur – þetta er bara eymd,“ segir hún um spilakassaheiminn. „Ísland væri bættara land með engum spilakössum. Það er rugl að hafa þetta opið. Þetta er búið að taka utanlandsferðir af mörgum börnum og jafnvel mat. Rústa heilu fjölskyldunum, þetta helvíti,““ segir konan sem kölluð er Ásdís á lokum.is
Alma vill vita hver þrýsti á opnun spilasala og heimtar svör og rökstuðning fyrir mikilvægi þessara opnana.
„Ég efast um að einhver vilji opna spilakassa nema rekstraraðilar.“