Erfiðasta og hættulegasta fjallið

Tjaldbúðir í grennd við fjallið að sumarlagi. Fjallstoppur K2 í …
Tjaldbúðir í grennd við fjallið að sumarlagi. Fjallstoppur K2 í fjarska fyrir miðju. AFP

„Þetta er grimmt fjall sem reynir að drepa þig,“ sagði bandaríski fjallgöngumaðurinn George Bell við blaðamenn árið 1953, og átti þar við fjallið K2, næsthæsta tind jarðkringlunnar. Þá hafði hann nýlokið við tilraun til að komast á topp fjallsins. Honum mistókst það og lét nærri lífið um leið.

Æ síðan hefur K2 verið þekkt sem „fjallið grimma“.

Í heimi fjallaklifurs er yfirleitt litið á tindinn sem þann erfiðasta og hættulegasta sem hægt er að klifra. Og þá er af mörgu að taka.

Þrátt fyrir að Everest-fjall sé tæplega 240 metrum hærra, eða um 8.849 metrar miðað við 8.611 metra K2, þá er K2 töluvert norðar og þar gætir illviðris mun oftar. Atlaga að fjallinu að vetri til þykir þá sérstaklega varasöm þar sem veður skipast skjótt í lofti og þykir mjög óútreiknanlegt.

Síðast var vitað til Johns Snorra og tveggja samferðamanna hans …
Síðast var vitað til Johns Snorra og tveggja samferðamanna hans við flöskuhálsinn svokallaða, nærri fjallstindinum.

55 metrar á sekúndu og 60 gráða frost

Enda var það ekki fyrr en í síðasta mánuði sem menn náðu fyrst á topp fjallsins að vetri til. Hóp­ur tíu nepalskra fjallagarp­a var þar að verki.

Frá því fyrst var reynt að klífa á tind K2 að vetr­ar­lagi, vet­ur­inn 1987-1988, hafði það verið reynt nokkrum sinnum en fjallið þótt nánast ókleift á þessum tíma árs.

Samkvæmt veðurfarsmælingum geta vetrarvindar blásið um fjallið hraðar en sem nemur 55 metrum á sekúndu. Hitastig getur þá náð allt að 60 gráðum undir frostmark.

Talið er að um að einn láti lífið í hlíðum fjallsins fyrir hverja fjóra sem ná tindinum, og þá er miðað við allar árstíðir, ekki aðeins yfir vetrartímann. Ellefu létust á einum degi í hlíðum fjallsins árið 2008, í einu mannskæðasta fjallgönguslysi sögunnar.

Búlgarskur fjallgöngumaður lést í síðustu viku á fjallinu. Var hann sá þriðji sem lést á þessu ári, eftir að Spánverji hrapaði til bana í janúar. Bandaríkjamaðurinn Alex Goldfarb lést í grennd við fjallið í janúar.

Frá leiðangri nepölsku fjallagarpanna á tindinn í janúar.
Frá leiðangri nepölsku fjallagarpanna á tindinn í janúar. AFP

Hafði ekkert nafn á meðal innfæddra

K2 dregur nafn sitt af merkingum sem notast var við þegar Bretar réðust í mikla og ítarlega kortagerð af Breska-Indlandi.

Undirofurstinn Thomas Montgomerie hafði það verkefni að gera fyrstur manna kort af Karakóram-fjallgarðinum. Kleif hann þá fjallið Haramukh, sem tilheyrir Himalaja-fjallgarðinum, og horfði til norðurs. Rissaði hann upp þá tvo tinda sem hæst bar við himin og merkti þá K1 og K2. K fyrir Karakóram.

Sú stefna var höfð við þessa kortagerð að notast við þau nöfn sem innfæddir höfðu um fjöllin, þar sem því varð við komið. Þannig kom í ljós að tindurinn K1 var af íbúum svæðisins nefndur Masherbrum. Sá er 7.821 metri að hæð og þar með 22. hæsta fjall heims.

Hvað K2 varðaði hins vegar, reyndist fjallið ekkert nafn hafa á meðal innfæddra. Ekki sást til fjallsins frá þorpinu Askole, sem var næsta þorpið til suðurs, og heldur ekki frá næstu byggð norður af fjallinu.

K2 nær 8.611 metra hæð yfir sjávarmáli.
K2 nær 8.611 metra hæð yfir sjávarmáli. AFP

Frumeindir og stjörnur

Ítalski fjallgöngumaðurinn Fosco Maraini lýsti, í bók um göngu sína á fjallið Gasherbrum IV sem út kom árið 1961, þeirri skoðun sinni að hið óvenjulega heiti K2 hæfði vel fjalli sem væri svo afskekkt og erfitt.

„Það gerir enga tilraun til að hljóma mennskt. Það er frumeindir og stjörnur. Það hefur í sér nektina af heiminum fyrir fyrsta manninn – eða af sviðinni plánetunni eftir þann hinsta.“

Áratugum síðar heillar tindurinn enn fjallgöngumenn.

„Ég var ofar skýjunum á K2 og sá sjóndeildarhringinn. Það er magnað að sjá hvernig jörðin kemur í boga. Ég horfi yfir risafjöll, 6.000 til 7.000 metra há, sem virka bara lítil þarna uppi. En þarna er fallegt útsýni þegar horft er til Kína og Pakistans,“ sagði John Snorri Sigurjónsson í samtali við Morgunblaðið í janúar 2018. 

Grunnbúðirnar við K2 í Norður-Pakistan.
Grunnbúðirnar við K2 í Norður-Pakistan. AFP

Enginn sem ekki hefur orðið hræddur

Eins og fjallið heillar þá vekur það einnig skelfingu í huga þeirra sem við það kljást.

„Það er enginn sem ég veit um sem hefur ekki orðið hræddur á fjallinu sjálfu. Þetta er mjög ógnvekjandi fjall. Þau eru tvö fjöll þarna hlið við hlið, 8.000 metra há, og það myndast alveg svakalegir vindstrengir á milli þeirra. Og það sem gerist oft er að tjöldin springa og þá eru jafnvel margir komnir í eitt tjald sem er ekki sprungið og þá ertu kannski fastur þar í einn, tvo, þrjá daga. Kannski fjórir í tveggja manna tjaldi. Þannig að þetta reynir ekki síður á hugann og þolinmæðina,“ sagði John Snorri í samtali við Morgunblaðið í apríl árið 2017, áður en hann reyndi við tindinn.

Þremur mánuðum síðar náði hann á topp fjallsins. „Til­finn­ing­in er blend­in. Við erum rosa­lega þreytt­ir. Þetta var mjög erfitt,“ sagði hann í samtali við mbl.is af toppnum.

Grunnbúðir fjallgöngumanna á leið á K2.
Grunnbúðir fjallgöngumanna á leið á K2. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert