Þingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson hefur ákveðið að ganga til liðs við Pírata. Andrés, sem undanfarið rúmt ár hefur verið utan flokka eftir að hann sagði sig úr þingflokki VG, greindi frá ákvörðuninni á Facebook-síðu sinni.
„Ég hef ákveðið að ganga til liðs við þingflokk Pírata. Þetta var ekki einföld ákvörðun og er tekin eftir mikla yfirlegu. Ég vil vera hluti af hópi sem er hægt að treysta til að taka djarfar ákvarðanir og tel að innan þingflokks Pírata muni hugsjónum mínum vera best borgið. Í framhaldinu mun ég gefa kost á mér í prófkjöri Pírata til að sjá hvort grasrótin vilji treysta mér fyrir áframhaldandi verkefnum eftir kosningar,“ skrifar Andrés á Facebook-síðuna.
Hann kveðst alltaf hafa unnið vel með Pírötum á þingi.
„Sem hluti af þingflokki Pírata gefst mér tækifæri til að vera hluti af hópi sem er í lykilstöðu til að gera samfélagið okkar betra fyrir okkur öll, þátttakandi í hreyfingu sem getur séð til þess að eftir næstu kosningar verði mynduð ríkisstjórn sem nær ekki bara utan um lægsta samnefnara heldur alvörubreytingar í þágu mannréttinda, fólksins í landinu og framtíðarinnar. Á þingi hef ég lagt mikla áherslu á loftslagsmál, eflingu lýðræðis og jafnrétti og veit að á þeim sviðum get ég tekið þátt í að móta sannfærandi og öfluga kosningastefnu Pírata fyrir haustið,“ skrifar Andrés enn fremur.
„Þingflokkur Pírata samþykkti einróma að bjóða Andrés Inga velkominn í hópinn á þingflokksfundi í morgun. Andrés Ingi og þingflokkurinn hafa átt í góðu samstarfi, flutt saman fjölda þingmála og unnið náið saman í nefndum þingsins. Með tímanum hefur komið í ljós að um er að ræða náttúrulega bandamenn með margar sameiginlegar áherslur. Andrés er gríðarlega öflugur þingmaður sem hefur áorkað miklu einn síns liðs og er því mikill fengur fyrir þingflokk Pírata,“ segir í tilkynningu frá Pírötum.