Uppstillingarnefnd Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur lokið störfum. Tillögur nefndarinnar að framboðslistum flokksins fyrir alþingiskosningar í haust verða kynntar á allsherjarfundi Samfylkingarfélaga í Reykjavík laugardaginn 13. febrúar klukkan 13 og verður þar gengið til atkvæða um tillögurnar.
Uppstillingarnefnd lagði til grundvallar vali sínu könnun sem haldin var meðal félagsmanna í desember. Niðurstöður hennar voru þó ekki bindandi og fengu frambjóðendur eingöngu að vita hvort þeir hefðu hafnað í einu af fimm efstu sætum listans eða ekki.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru Helga Vala Helgadóttir þingmaður, Kristrún Frostadóttir hagfræðingur, Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður, Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður og Ragna Sigurðardóttir, forseti Ungra jafnaðarmanna, í efstu fimm sætum könnunarinnar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, fékk hins vegar dræma kosningu og ákvað hann að taka ekki sæti á lista eftir að boði hans um að hann færði sig úr oddvitasætinu í annað sætið var hafnað.
Talið er líklegast að Helga Vala haldi oddvitasætinu í Reykjavíkurkjördæmi norður en Kristrún Frostadóttir muni leiða listann í suðri.
Enn er óvíst hvort Rósa Björk tekur sæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu eða Suðvesturkjördæmi. Rósa Björk tók þátt í kosningunni í Reykjavík, en tilkynnti síðar að hún sæktist eftir oddvitasætinu í suðvestri.
Sama gildir um Heiðu Björgu Hilmarsdóttur, varaformann flokksins og borgarfulltrúa. Heiða Björg gaf ekki kost á sér í könnuninni í desember, en greint var frá því fyrr í mánuðinum að hún hefði lýst yfir áhuga á að taka sæti á lista.