Sendir tillögur á næstu dögum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendir heilbrigðisráðherra tillögur á næstu dögum um breytingar á sóttvarnaráðstöfunum á landamærum. Hann tilkynnti þetta á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Þessar tillögur fela líklega í sér hertar aðgerðir sem snúa að því að lágmarka líkur á að smit berist inn í landið, nú þegar árangur sóttvarnaaðgerða hefur verið eins góður og raun ber vitni.

Ef hægt er að treysta varnirnar á landamærunum og þróunin innanlands er áfram sú sama, telur Þórólfur að hægt sé að vera vongóður um frjálslegt sumar hér á landi.

„Það er hægt að fullyrða að aðgerðir innanlands hafa skilað góðum árangri sem og aðgerðir á landamærum.

Til að tryggja áframhaldandi góðan árangur innanlands og áframhaldandi tilslakanir þá er verið að kanna hvort hægt sé að tryggja sem best að smit berist ekki inn í gegnum landamærin og er það unnið í samstarfi við fjölda aðila, þar á meðal landamæraverði á Keflavíkurflugvelli.

Tillögur verða sendar ráðherra á næstu dögum um frekari aðgerðir,“ sagði Þórólfur.

Aðeins þrettán í sóttkví

Ræddir hafa verið möguleikar á að skikka fólk í dvöl í farsóttarhúsi við komuna til landsins, eins og hefur verið gert með góðum árangri í Nýja-Sjálandi og víðar. Áður var ekki heimild í íslenskum lögum til slíkra ráðstafana en því var breytt á Alþingi fyrir skemmstu.

Enginn er með virkt smit á Landspítalanum og á undanfarinni viku hafa aðeins þrír greinst með Covid-19 á Íslandi, allir í sóttkví. Þrettán eru í sóttkví á landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert