Vonast eftir sjálfkeyrandi strætó árið 2023

Sjálfkeyrandi strætisvagnar gætu orðið algeng sjón innan margra ára. Fyrsta …
Sjálfkeyrandi strætisvagnar gætu orðið algeng sjón innan margra ára. Fyrsta skrefið væru þó minni vagnar á sérvöldum leiðum. mbl.is/Hari

Launakostnaður nemur um helmingi við rekstur hvers vagns hjá Strætó. Fjölgun vagna, t.d. með aukinni ferðatíðni, er því dýr aðgerð og til mikils að vinna ef hægt er að hagræða í þessum útgjaldalið. Fyrstu skrefin að sjálfkeyrandi strætisvögnum gætu verið innan sjónmáls hér á landi, en Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir að hann vonist til að sjá fyrstu slíku vagnana innan tveggja ára.

Í gær fjallaði mbl.is um að í drögum að framkvæmdum við fyrstu lotu borgarlínu sé gert ráð fyrir að auka tíðni vagna á fyrstu tveimur leiðum borgarlínunnar umtalsvert frá því sem nú er. Jóhannes sagði að þó væri ekki gert ráð fyrir að fjölga þyrfti vögnum hlutfallslega jafn mikið, þar sem sérrými gerði það að verkum að vagnarnir kæmust hraðar yfir. Engu að síður þýddi aukin tíðni talsverða fjölgun vagna.

Tilraunir með sjálfkeyrandi bíla hafa verið í gangi víða um heim í nokkurn tíma og sjálfstýrandi búnað er að finna í mörgum bílum nú þegar hér á landi. Hins vegar er enn gert ráð fyrir að bílstjóri sé tilbúinn að grípa inn í ef á þarf að halda.

Litlir vagnar í fyrstu

Jóhannes segist þess fullviss að þetta sé tækni sem koma skuli í almenningssamgöngum og að Strætó sé nú þegar að vinna að því að koma upp slíku tilraunaverkefni. „Við teljum að það sé alveg 100% öruggt að ef það er einhvers staðar hægt að prófa sjálfkeyrandi bíla, þá er það þegar þú ert með sérrými,“ segir hann, en í fyrsta áfanga borgarlínu er gert ráð fyrir um 70% sérrýma.

Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri strætó.
Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri strætó. mbl.is/Kristinn Magnússon

Segir Jóhannes að þróunin í sjálfkeyrandi strætisvögnum sé mikil, en enn sé þó um að ræða litla vagna með um 8-10 farþegum. „Við höfum verið að reyna að fá fjármagn til að prófa þetta,“ segir hann. „Vonandi verður það á næstu misserum sem við förum að sjá einhver tilraunaverkefni hér í þessu.“

Ökumaður yrði með um borð

Jóhannes bendir á að sem dæmi séu Norðmenn með sjálfkeyrandi vagna í tilraunafasa í Ósló og Finnar í Helsinki. Alltaf sé þó ökumaður um borð og þannig yrði þetta líka hér á landi ef af verkefninu yrði. „Við erum á fullu að reyna að fá fjármagn í gegnum Evrópusambandsstyrki og samstarfsaðila. Við vonum að við sjáum þetta árið 2023 í síðasta lagi,“ segir hann.

Myndi breyta forsendum borgarlínu mikið

Í grein mbl.is í gær kom fram að í rekstraráætlun borgarlínu væri gert ráð fyrir því að framlag hins opinbera til borgarlínu og strætó myndi hækka um 1-2 milljarða árið 2024, en að það yrði svo hið sama og nú er, meðal annars því gert sé ráð fyrir talsverðri fjölgun notenda. Jóhannes segir að ef hægt væri að draga saman í launakostnaði með sjálfkeyrandi vögnum yrði það gríðarleg hagræðing sem myndi breyta forsendum borgarlínu mikið til hins betra.

Jóhannes tekur þó fram að ef komi til þess að vagnarnir verði að endingu sjálfkeyrandi megi gera ráð fyrir því að einhver hluti launakostnaðarins færist yfir í stjórnstöðvarstýringu og eftirlit, en að þetta gæti lækkað rekstrarkostnað almenningssamgangna til framtíðar að því gefnu að vagnarnir verði ekki óhemjudýrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert