Útsýnið hjá Þráni Hafsteinssyni, flugstjóra hjá Erni, var af dýrari gerðinni í farþegaflugi frá Malmö í Svíþjóð til Reykjavíkur um klukkan 18 á miðvikudaginn þar sem leiðin lá yfir snæviþaktar Færeyjar við aftanskæru.
Þráinn, sem veitti mbl.is góðfúslegt leyfi sitt til að birta myndina, kveðst hafa verið í 26.000 feta hæð þegar myndin var tekin og farkosturinn Dornier Do-328. Þéttbýliskjarninn sem næst sést á myndinni er Klaksvík á Borðey en fjær sést Leirvík á Austurey.