Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum á fimmtudaginn tillögu borgarstjóra um að hefja samstarf við Betri samgöngur ohf. um þróun skipulags á Keldnalandi.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og talsmaður Betri samgangna segja að ljóst sé að nýting landsins geti ekki hafist að miklu leyti fyrr en það hafi verið tengt samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins með Borgarlínunni. Nú sé áætlað að það verði eftir 12 ár, eða árið 2033.
Landsvæði ríkisins við Keldur og í Keldnaholti er alls 117 hektarar. Því er um að ræða mikið byggingarland í Keldnlandi, sunnan við Folda- og Húsahverfi í Grafarvogi. Mögulegt er talið að allt að fimm þúsund manna byggð verði þar.
Hinn 26. september 2019 undirrituðu ríkið, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær sáttmála um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt sáttmálanum leggur ríkið Keldnalandið m.a. til sem hluta af fjármögnun uppbyggingarinnar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.