Tveir veitingastaðir í miðborginni eiga hugsanlega yfir höfði sér kæru fyrir brot á sóttvarnalögum í gærkvöldi. Annar þeirra einnig fyrir brot á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Jafnframt voru tónleikar stöðvaðir og er um ítrekað brot að ræða.
Lögreglan fór í skipulagt veitingahúsaeftirlit á veitingahús í miðborginni milli klukkan 20.30 og 22:30 í gærkvöldi. Hugað var að hvort farið væri eftir reglugerð um takmörkun á samkomum.
Eftirlit var haft með hámarki gesta í hverju rými, svæðisskiptingum, að afgreitt væri í sæti og hvort farið væri eftir því að hleypt yrði ekki inn nýjum viðskiptavinum eftir kl 21:00. Þá var eftirlit eftir kl. 22:00 með lokun skemmtistaða í miðbænum. Ítrekaði lögreglan við starfsfólk að veitingastaðir ættu að loka kl. 22:00 og gestir ættu að vera farnir út kl. 22:00.
Einn veitingastaður á hugsanlega von á kæru fyrir brot á sóttvarnalögum annars vegar og brot á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald hins vegar. Annar veitingastaður á hugsanlega von á kæru fyrir brot á sóttvarnalögum. Báðir staðirnir höfðu það sameiginlegt að of margir gestir voru samankomnir.
Lögreglu barst tilkynning um útitónleika í miðborginni á ellefta tímanum í gærkvöldi þar sem hópur fólks var saman kominn. Var lögreglu tjáð að þetta hefði gerst ítrekað. Tónleikahaldari verður kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt og brot á sóttvarnalögum. Engin heimild var fyrir tónleikum og hefur lögregla áður sinnt sams konar tilkynningum.