Þingmenn gætu misst stæðin við Tjörnina

Bílastæðið á bak við Alþingishúsið gæti heyrt sögunni til.
Bílastæðið á bak við Alþingishúsið gæti heyrt sögunni til. Skjáskot/Google Maps

Svo gæti farið að þar sem nú er bílastæði fyrir alþingismenn, við Vonarstræti á bak við Alþingishúsið, verði innan fáeinna ára brautarpallur fyrir borgarlínuna. Í kringum brautarpallinn væri þá opið svæði í framhaldi af Alþingisgarðinum.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir í samtali við mbl.is að þessi mál séu til skoðunar hjá Alþingi, þó að engin afstaða hafi enn verið tekin til breytinganna.

„En auðvitað ríma góðar almenningssamgöngur mjög vel við það sem hefur verið unnið að hingað til á Alþingi. Út frá því er gott aðgengi að borgarlínunni á milli Alþingis og ráðhússins ekki galin hugmynd,“ segir Steingrímur.

Garður Alþingis stækkaður?

Í frumdrögum að borgarlínu er beinlínis sagt að „huga mætti að því að garður Alþingis yrði stækkaður fram að Vonarstræti og að stöð Borgarlínunnar yrði fléttuð saman við þá stækkun“.

Jafnframt er þó tekið fram að gæta þurfi vel að sögulegu gildi Alþingisgarðsins, sem er friðaður. Steingrímur setur fram svipuð sjónarmið.

„Ég set strax fyrirvara við því að hróflað verði við honum enda er hann sem slíkur í núverandi mynd sögulegur og stór hluti af þessu umhverfi. En opið og skemmtilegt svæði gæti verið aðlaðandi,“ segir Steingrímur.

Alþingisgarðurinn er friðaður.
Alþingisgarðurinn er friðaður. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Getur vel verið að sneitt verði af bílastæðunum

Heildarbílastæðafjöldi á svæðinu er einnig þáttur sem þarf að huga að, segir Steingrímur. Bílastæði alþingismanna á reitnum núna hljóta að vera með verðmætustu bílastæðum á landinu en Steingrímur segir að það geti vel verið að niðurstaðan verði að sneiða af þeim. 

Fari svo að þau víki, má þó líta til þess að fjöldi nýrra neðanjarðarbílastæða bætist við samfara viðbyggingu Alþingishússins, sem á að vera tekin í gagnið 2023.

Ákvörðun um ráðstafanir á þessum reit eru á forræði forseta Alþingis en ekki undirorpnar beinna lýðræðislegra ferli. Steingrímur segir þó að verði eitthvað aðhafst, séu mál á borð við þetta kynnt í forsætisnefnd þingsins. 

Fundir eru fram undan á milli borgarinnar og þingsins um skipulag á reitnum.

Borgarlínan eins og hún mun líta út á Hverfisgötu.
Borgarlínan eins og hún mun líta út á Hverfisgötu. Teikning/Borgarlínan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert