300 milljónir sparist á ári með sameiningu

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er til húsa í Borgartúni. Hér sést …
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er til húsa í Borgartúni. Hér sést Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra í pontu. Ljósmynd/Aðsend

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur óskað eftir því að félagsmálaráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kanni sem fyrst kosti þess að flytja fasteignaskrá, sem hefur verið hluti af Þjóðskrá Íslands frá árinu 2010, yfir til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, bendir í samtali við mbl.is á að sveitarfélögin borgi um 300 milljónir króna á ári fyrir rekstur fasteignaskrár hjá Þjóðskrá. „Við töldum að okkur bæri skylda til að hvetja menn til að kanna þetta ítarlega og fá botn í það hvort þetta sé hagkvæmt eða ekki,“ segir Karl og bætir við að sérfræðingar hafi bent á að þarna leynist miklir samlegðarmöguleikar.

„Ég tel að þeim sem koma að svona málum ber skylda til að vera sífellt að leita hagræðingar og auka skilvirkni og árangur,“ segir hann.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ljósmynd/Samband íslenskra sveitarfélaga

Styrkir innleiðingu stafrænnar stjórnsýslu

Fram kemur í bréfi sambandsins til Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að það sé skýr afstaða þess að slíkur tilflutningur skapi möguleika á hagræðingu í þágu heildarhagsmuna. Einsýnt sé að sveitarfélögin muni njóta hennar með lækkun tilkostnaðar sem þau beri í núverandi fyrirkomulagi.

„Jafnframt myndi tilflutningurinn og sameining verkefna á einni hendi styrkja innleiðingu á stafrænni stjórnsýslu með því að umsjón verkefna væri ekki skipt á milli fleiri ríkisstofnana eins og nú er. Þá felast í breytingunni margvísleg tækifæri sem nýta mætti til þess að efla starfsemi hins opinbera á landbyggðinni m.a. í gegnum tilkomu starfa án staðsetningar sem rækt væru í stöðugt vaxandi mæli með rafrænum hætti,“ segir í bréfinu.

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Árni Sæberg

Góð samskipti við Þjóðskrá

Fram kemur að í umsókn um lagafrumvarp haustið 2019 um HMS, sem varð til við samruna Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar, hafi sambandið bent á að fyllsta ástæða væri til þess að kanna frekari sameiningar opinberra aðila sem koma að húsnæðismálum.

Út frá samlegðaráhrifum hafi sérstaklega verið tiltekið að rekstur og utanumhald fasteignaskrár á vegum Þjóðskrár ætti nána samleið með húsnæðisgrunni/gagnasafni nýrrar stofnunar.

„Sambandið hefur mikla og góða reynslu af samstarfi við stjórnendur Þjóðskrár og væntir þess að svo verði áfram þrátt fyrir þessa hugsanlegu breytingu,“ segir í bréfinu.

Karl segir sveitarfélögin almennt vera ánægð með samskiptin bæði við Þjóðskrá og HMS. Málið snúist ekki um það. „Það er bara einfaldur vilji til að leita hagræðingar alls staðar þar sem kostur er. Þetta er mjög eðlilegt af okkar hálfu.“

Þjóðskrá Íslands er til húsa í Borgartúni.
Þjóðskrá Íslands er til húsa í Borgartúni. Ljósmynd/Aðsend

Stórar tölur til lengri tíma litið

Þar sem Þjóðskrá heyrir undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og HMS undir félagsmálaráðuneytið hefur verið talað við bæði ráðuneytin og óskað eftir því að skoðunin færi fram. „Það er mjög spennandi ef niðurstaðan verður að það sé hægt að ná fram hagræðingu. Þá hlýtur það að ráða niðurstöðu málsins,“ greinir Karl frá.

Spurður hvaða upphæðir gætu sparast við sameininguna segir hann að sveitarfélögin séu að borga um 300 milljónir króna á ári fyrir þjónustu Þjóðskrár og allt sem gæti þar komið til lækkunar ef að breytingunni verður sé ábati fyrir sveitarfélögin. „Þetta fer eftir því hvernig útfærslan verður en það geta verið stórar tölur í þessu, sérstaklega til lengri tíma litið ef þetta tekst vel,“ segir hann. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjárhagsleg markmið ekki náðst

Í skýrslu ríkisendurskoðunar til Alþingis árið 2013, þremur árum eftir sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands, kom fram að fjárhagsleg markmið nýju stofnunarinnar hafi ekki náðst. Ólíkt því sem stefnt hafi verið að við sameiningu og úr takt við almenna hagræðingarkröfu ríkisins hafi starfsmönnum fjölgað og heildargjöld aukist. Ýmsar ábendingar um úrbætur voru jafnframt settar fram.  

Sú hugmynd að sameina Þjóðskrá og Fasteignaskrá Íslands í eina stofnun fékk fyrst byr undir vængi haustið 2009 þegar málefni Fasteignaskrár Íslands fluttust frá fjármálaráðuneyti til þáverandi dómsmála‐  og mannréttindaráðuneytis. Það ráðuneyti hafði haft umsjón með Þjóðskrá frá árinu 2006 þegar hún fluttist frá Hagstofu Íslands þar sem hún hafði starfað sem sérstök deild, að því er kemur einnig fram í skýrslu ríkisendurskoðunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert