Meiri líkur á slappleika eftir seinni sprautuna

Frá bólusetningu framlínustarfsfólks í Laugardagshöll síðastliðinn miðvikudag.
Frá bólusetningu framlínustarfsfólks í Laugardagshöll síðastliðinn miðvikudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir algjörlega eðlilegt að fólk verði slappt í kjölfar bólusetningar, hvort sem hún er gegn Covid-19 eða öðru. Þá séu meiri líkur á slappleika eftir seinni bólusetninguna þar sem þá sé ónæmiskerfið fullræst. 

Fyrir helgi bárust fregnir af því að margt starfsfólk hjúkrunarheimila, sem fékk fyrstu sprautuna sína af bóluefni AstraZeneca, sem og starfsfólk slökkviliða, sem fékk sprautu af bóluefni Moderna, hefði orðið slappt og jafnvel veikt eftir bólusetninguna. 

Rúna segir að viðbúið hefði verið að fólk yrði slappt. Þá segir hún líklegra að yngra fólk finni til slappleika eftir bólusetningu en það eldra þar sem yngra fólk er með virkara ónæmiskerfi en eldra fólk. 

Engin alvarleg tilkynning vegna AstraZeneca

Að sögn Rúnu er það ekki áhyggjuefni að fólk finni til slappleika eftir bólusetningu, það sýni einfaldlega að efnið virki. 

Lyfjastofnun hafa nú borist 274 tilkynningar vegna gruns um aukaverkanir í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19. Þar af eru 19 alvarlegar. 

161 tilkynning hefur borist vegna Comitnaty-bóluefnisins sem Pfizer og BioNTech standa að, þar af 16 alvarlegar. 96 tilkynningar um grun um aukaverkanir hafa borist vegna bóluefnis Moderna, þar af þrjár alvarlegar. 17 tilkynningar hafa borist vegna gruns um aukaverkanir vegna bóluefnis AstraZeneca, engin þeirra er alvarleg. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert