Aukin umræða um vopnaburð innan lögreglu

Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur til þessa verið kölluð til ef til …
Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur til þessa verið kölluð til ef til skotvopna þarf að grípa. mbl.is/​Hari

„Ég er ekki hrifinn af þeirri hugmynd að lögregla fari almennt að vopnast,“ segir Fjölnir Sæmundsson, varðstjóri á Suðurlandi og verðandi formaður Landssambands lögreglumanna.
Hann segir þó aukna umræðu meðal lögreglumanna um nauðsyn þess að bera skotvopn. Er það í ljósi aukinnar tíðni árása þar sem skotvopnum hefur verið beitt.

„Menn eru þjálfaðir í meðferð skotvopna en það er svo stór ákvörðun að ætla að fara að bera skotvopn. Ég held að það sé heimur sem fáir lögreglumenn vilja starfa við,“ segir Fjölnir.

Bílar á landsbyggðinni útbúnir skotvopnum

Hann bendir á að sérsveitin sé vopnuð og að þar séu þrautþjálfaðir menn á ferð. Vissulega geti komið upp mál þar sem sérsveitin þarf að ferðast um langan veg og því ekki hægt að njóta liðsinnis hennar nema eftir langa bið. „Í ljósi þessa þarf ekkert að fela það að mjög margir lögreglubílar á landsbyggðinni eru útbúnir skotvopnum. Ég veit ekki hvort fólk sé meðvitað um það en þannig er það bara," segir Fjölnir.

Fjölnir Sæmundsson, verðandi formaður Landssambands lögreglumanna.
Fjölnir Sæmundsson, verðandi formaður Landssambands lögreglumanna.

Hann bendir á að menningin á Íslandi sé ólík því sem gerist víða um heim og að yfirleitt sé hægt að leysa málin án þess að grípa til skotvopna.

Eru ekki með númer að talnalás 

„Eins og málin standa tel ég það vera fullnægjandi hvernig staðið er að vopnaburði lögreglu. Svo getur verið annað mál hvernig tæknileg útfærsla er, hvernig hægt er að nálgast skotvopn. Almennir lögreglumenn eru t.a.m. ekki með númer að læstum talnalás þar sem skotvopn eru geymd. Þú þarft sérstakt leyfi enda skotvopnin hugsuð sem nauðvörn,“ segir Fjölnir.

Danska lögreglan vopnaðist á einni nóttu

Hann segir skiptar skoðanir á málinu. Sumir félagsmenn hafi bent á það að danska lögreglan hafi vopnast á einni nóttu þegar lögreglumaður var skotinn við skyldustörf.

„Það breytir því ekki að almennt hef ég haft þá tilfinningu að menn vilji ekki bera skotvopn við skyldustörf,“ segir Fjölnir.

„Reglan er sú að hörfa í skjól og kalla á sérfræðinga. Það hefur gefist vel hingað til,“ segir Fjölnir.

Hann var nýlega kjörinn formaður Landssambands lögreglumanna (LSS) en hefur ekki störf fyrr en í apríl. Hann áréttar því að hann tali ekki fyrir hönd LSS enn sem komið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert