Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur gefið Fréttablaðinu þrjá daga til að bregðast við kröfu lögmanna á hans vegum um að fjölmiðillinn biðji Ragnar afsökunar á forsíðu blaðsins. Aukinheldur snýr krafan að því að framsetning afsökunarinnar verði með sama hætti og fréttaflutningur af því að hann væri bendlaður við veiðiþjófnað.
Fór allur textahluti forsíðunnar í umfjöllun um málið.
„Við höfum sent inn erindi þar sem ég krefst þess að vera beðinn afsökunar á forsíðu Fréttablaðsins með jafn áberandi hætti og hin fréttin var sett fram. Staðan er sú að Fréttablaðið hefur nú þrjá daga til að svara,“ segir Ragnar.
Segjum sem svo að Fréttablaðið myndi velja að biðjast afsökunar en að setja hana á blaðsíðu 8. Myndir þú telja það fullnægjandi?
„Við vísum bara í lögin þar sem tilgreint er að við getum gert þessa kröfu með þessum hætti. Þetta er það sem við gerum kröfu um nú. Ákvörðun um næstu skref verður svo tekin eftir að þessu hefur verið svarað,“ segir Ragnar Þór.
Aukinheldur segir hann að erindi hafi verið sent til ritstjórnar Fréttablaðsins þar sem krafist er jafnræðis í umfjöllun um frambjóðendur í kosningu til formanns VR. Eins og fram hefur komið bauð Helga Guðrún Jónasdóttir sig fram gegn Ragnari.
Ekkert talað um stöðu vitnis eða sakbornings
Í frétt á síðu 2 í Fréttablaðinu í dag er sagt að Ragnar Þór hefði verið í hópi þeirra sem staðnir voru að ólöglegu netalögninni. „Haft var eftir honum að málið væri honum algjörlega óviðkomandi. Tekið er fram að í fréttinni var ekki fullyrt að Ragnar Þór hefði stöðu vitnis eða sakbornings í málinu,“ segir í fréttinni.
Fréttin hefur verið uppfærð