Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur fengið talsvert af fyrirspurnum frá Íslendingum sem staddir eru erlendis vegna nýrra reglna á landamærunum. Með nýju reglunum þarf fólk að framvísa niðurstöðum úr neikvæðu PCR-prófi vegna Covid-19, auk þess að fara í tvöfalda skimun við komuna til landsins með nokkurra daga sóttkví á milli.
„Þetta kemur í gusum. Þegar verða breytingar eins og þarna þá kemur eðlilega tímabundinn kúfur. Síðan hjaðnar þetta,“ segir Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins.
Spurður hvort fólk hafi verið í verulegum vandræðum vegna þessa segir Sveinn:
„Það er ljóst að fólk hefur haft spurningar um það bæði hvar það getur fengið PCR-próf, í hvaða stöðu það er ef það þarf að millilenda og hvar þessi tímafrestur hefst nákvæmlega. Þetta er náttúrulega hertari takmörkun og ferðalangar þurfa þar með að afla frekari gagna en var áður í reglunum. Ef fólk hefur tímann fyrir sér ætti það að reynast flestum vel mögulegt.“