Héraðssaksóknari hefur fellt niður mál gegn fyrrverandi lögreglustjóra Suðurnesja og tveimur starfsmönnum embættisins, saksóknarfulltrúa og skjalastjóra, að því er Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir í samtali við mbl.is.
Samkvæmt heimildum mbl.is laut rannsóknin að gagnaleka eða birtingu bréfs sem Ólafur sendi dómsmálaráðuneytinu í sumar en því var jafnframt lekið til Fréttablaðsins. Í bréfinu, sem sent var áður en Ólafur náði samkomulagi við ráðuneytið um framtíð sína, fór hann meðal annars fram á rannsókn á veikindaleyfi tveggja yfirmanna við embættið.
Nokkrar deilur höfðu verið innan embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum um störf Ólafs Helga, sem meðal annars rötuðu í fjölmiðla síðasta sumar. Lauk þeim með íhlutun dómsmálaráðherra, sem flutti hann í starf sérfræðings í málefnum landamæragæslu hjá dómsmálaráðuneytinu.