„Tökum ekki gild nein vottorð utan Evrópu“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarna segir að Ísland taki ekki við neinum bólusetningarvottorðum utan Evrópu. Ísland virðist vera að taka fyrsta skrefið í viðurkenningu bóluefnavottorða að sögn Víðis, en bóluefnavottorð frá Íslandi eru til að mynda ekki viðurkennd í Danmörku. 

Mbl.is greindi frá því í gær að íslenskir farþegar frá Bandaríkjunum sem hafa fengið bóluefni Moderna, þurfi að sæta sömu takmörkunum og þeir sem ekki eru bólusettir, þ.e. sóttkví og skimun. 

Víðir segir þetta eiga sér einfalda skýringu: 

„Við erum eitt af örfáum löndum sem yfirhöfuð taka við bólusetningarvottorðum. Ramminn í kringum það er annars vegar skilyrði um evrópsk bólusetningarvottorð á ensku eða Norðurlandamálum og hins vegar skilyrði um að ef menn eru með alþjóðabólusetningarvottorðið, sé það bóluefni sem er viðurkennt af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem er í því, og eins og staðan er í dag er það bara eitt bóluefni sem stofnunin hefur gefið heimild til að setja í þetta skírteini, Pfizer. Þegar það kemur heimild um að það megi setja fleiri bóluefni í alþjóðabólusetningarvottorðið þá mun það auðvitað liðka fyrir,“ segir Víðir. 

„Við tökum ekki gild nein vottorð utan Evrópu og alþjóðabólusetningarvottorðið er bundið þessum kvöðum. En þetta mun örugglega þróast mjög hratt á næstunni,“ bætir Víðir við. 

Ísland virðist vera að taka fyrsta skrefið

Spurður hvort unnið sé að því að gera samning við aðrar þjóðir um gagnkvæma viðurkenningu bólusetningarvottorða segir Víðir: 

„Það er ekkert svoleiðis í gangi. Það er enginn að taka við vottorðum frá öðrum löndum. Íslensk vottorð til dæmis gilda ekkert í Danmörku eða Evrópu. Það hefur ekkert tekist að koma á einhverri gagnkvæmri viðurkenningu, en Ísland er að reyna að hafa forystu um það. Það þarf einhver að taka fyrsta skrefið og við virðumst vera að gera það.“

Hertar reglur á landamærunum tóku gildi á miðnætti og þurfa farþegar sem hingað koma nú að framvísa niðurstöðum úr neikvæðu PCR-prófi vegna Covid-19. 

Greint var frá því fyrr í dag að borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hafi fengið fjöldann allan af fyrirspurnum frá Íslendingum sem staddir eru erlendis vegna nýju reglnanna. 

Víðir segir að nokkuð svigrúm sé veitt fyrir þá farþega sem ekki hafa fengið tækifæri til að bregðast við nýjum reglum. Það verði því enginn sektaður á Keflavíkurflugvelli í dag, þrátt fyrir að talsverður fjöldi hafi ekki getað framvísað neikvæðri niðurstöðu. 

„Sektarheimildin frá ríkissaksóknara er ekki komin svo við megum ekki beita sektum enn sem komið er. Við skoðuðum þessi mál og vorum í samskiptum við talsvert margt fólk sem er að koma heim núna og menn þurftu bara fleiri daga til þess að komast í þessi próf. Það var aldrei markmiðið okkar að koma fólki í einhver vandræði, við viljum bara koma þessu á og við skiljum það alveg að það þurfi einhvern aðlögunartíma,“ segir Víðir. 

„Við bíðum eftir að fá þessa sektarheimild í hendurnar og sjáum svo hvað verður en við áttum okkur alveg á því að hið minnsta í dag verða menn að beita einhverri skynsemi í þessu. Það voru níu einstaklingar í morgun sem voru ekki með vottorð og það kom okkur eiginlega á óvart hversu margir höfðu getað náð sér í þessi próf. Það er betra aðgengi að þessum prófum t.d. í Danmörku en er í Bandaríkjunum. En hver dagur sem líður hlýtur að gefa fólki betra færi á að ná sér í þetta,“ segir Víðir. 

Allir vilji verja ástandið

Eitt smit kórónuveirunnar greindist innanlands í gær. Víðir segir að einstaklingar tengdir hinum smitaða hafi verið í sóttkví. 

„Uppruni þessa smits kemur að utan, þetta er breska afbrigðið sem við erum að horfa á þarna. Viðkomandi var í samskiptum við aðila sem kom jákvæður að utan og það eru aðilar í sóttkví tengdir þessum aðila sem eru auðvitað útsettir núna svo við þurfum að bíða í einhverja daga til að sjá hvað verður,“ segir Víðir.

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af miklum fjölda íbúa höfuðborgarsvæðisins sem stefnir út á land í vetrarfríum grunnskóla á næstunni segir Víðir: 

„Það er gríðarlegur fjöldi af fólki sem er kominn norður á Akureyri núna eða er að fara um helgina og þau eru alveg viðbúin því fyrir norðan. Þetta er búið að vera ljóst nokkuð lengi, búið að vera mikið um að fólk sé að panta gistirými og slíkt. Fyrst og fremst snýst þetta bara um að fólk sé skynsamt, þótt það séu fá smit þarf ekki mikið til að koma af stað bylgju eins og við þekkjum því miður vel. Það vilja allir verja þetta ástand og við þurfum aðeins að halda niðri í okkur andanum áfram og passa okkur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert