Tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis varðandi tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum vegna Covid-19 innanlands snúa ekki að grímunotkun og verður því grímuskylda áfram í verslunum og á opinberum stöðum þar sem fólk getur ekki viðhaft tveggja metra fjarlægð.
Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Þórólfur sagði að við ættum að fara mjög varlega í að fjarlægja grímurnar.
„Fólk er almennt hliðhollt því að nota grímur en auðvitað kemur að því að við hættum skyldunotkun á grímum,“ sagði Þórólfur.
Hvort það verði á þessu ári eða næsta verði að koma í ljós en Þórólfur kveðst ekki jafn svartsýnn og Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, sem býst við því að Bandaríkjamenn noti grímur á næsta ári.
Varðandi tilslakanir almennt sagði Þórólfur að það sé gríðarlega mikilvægt að fólk haldi áfram að passa sig þótt eitthvað verði slakað á aðgerðum á næstu dögum.
„Þetta þýðir ekki að núna getum við lifað hinu villta góða lífi,“ sagði Þórólfur.