Stofuskápur, stofustáss og sófi fóru af stað á heimili Viktoríu Lífar í Asparfelli í Breiðholti þegar jörð hóf að skjálfa í morgun. Þá segist Viktoría, sem býr í grennd við leikskóla, hafa heyrt öskur og óp í leikskólabörnum þegar stærsti skjálftinn varð á ellefta tímanum í morgun.
Mikill fjöldi skjálfta hefur skekið jörð á suðvesturhorninu, sá stærsti 5,7 að stærð, á síðasta klukkutímanum. Skjálftinn átti upptök sín 3,3 kílómetra suð-suðvestur af Keili á Reykjanesi.
„Við erum uppi á sjöundu hæð svo það var kannski ekkert skrýtið að við fyndum svona mikið fyrir þessu,“ segir Viktoría í samtali við mbl.is. Aðspurð segist hún hafa orðið svolítið hrædd.
„Skápurinn, sem var alveg upp við vegginn, hristist frá veggnum. Við biðum bara eftir því að fá hann í fangið.“
Viktoría og fjölskylda hennar ákváðu að grípa til varúðarráðstafana eftir að stóri skjálftinn varð og koma skápnum, stofustássinu og sófanum betur fyrir.
Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá hvernig heimili Viktoríu hristist í skjálftanum.