Hættustig almannavarna vegna jarðskjálftahrinunnar í dag nær nú einnig til Árnessýslu, en greint var frá því fyrr í dag að hættustigi hafi verið lýst yfir á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesskaga.
„Ákvörðun er tekin þar sem óstöðuleikinn nær yfir stórt svæði en jarðskjálftarnir í morgun hafa verið á milli Kleifarvatns og Grindavíkurvegar. Engir skjálftar hafa fundist milli Kleifarvatns og Bláfjalla á þessu ári en í sögunni hafa þar orðið skjálftar 6,5 að stærð,“ segir í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Einnig segir að ef skjálftavirkni færist austar geti áhrifasvæði stórs skjálfta náð um allan Reykjanesskaga, norður í Hvalfjarðarsveit, kringum Þingvelli og upp að Þjórsá. Þar eru útivistarsvæði og biðla almannavarnir til fólks að fara varlega í bröttum hlíðum og þar sem grjóthrun getur orðið.
Enn sem áður beina almannavarnir eftirfarandi tilmælum til þeirra sem búa á skjálftasvæðum:
- Mikilvægt er að halda ró sinni.
- Húsgögn: Festið skápa, hillur og þunga muni í gólf eða vegg. Festið létta skrautmuni.
- Lausir munir og skrautmunir: Stillið þungum munum ekki ofarlega í hillur eða á veggi án þess að festa þá tryggilega þannig að léttari munir færist ekki úr stað við jarðskjálfta.
- Kynditæki og ofnar: Kynnið ykkur staðsetningu og lokun á vatnsinntaki og rafmagnstöflu. Leki getur valdið miklu tjóni ef ekki er lokað strax fyrir vatnið. Sama gildir um frágang á þvottavélum og uppþvottavélum.
- Skápahurðir: Geymið þungan borðbúnað í neðri skápum / skúffum og setjið öryggislæsingar / barnalæsingar á skápahurðir til varnar að innihald þeirra falli út úr þeim.
- Svefnstaðir: Fyrirbyggið að skápar, málverk, brothættir og þungir munir geti fallið á svefnstaði. Varist að hafa rúm við stóra glugga og hlaðna milliveggi.
- Rúður: Tryggið að glerbrot fari ekki yfir svefnstaði og íverustaði fólks. Látið rúm ekki standa undir gluggum ef hætta er á jarðskjálftum.
- Útvarp og tilkynningar: Hlustið á tilkynningar og fyrirmæli sem gefin eru í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
- Símar: Hafa ber í huga að farsímar duga skammt ef rafmagn dettur út í lengri tíma. Þá getur verið gott að eiga hleðslutæki til að hafa í bifreið eða hleðslubanka til að hlaða farsíma. Sendu SMS til þinna nánustu í stað þess að hringja (sérstaklega eftir stóran jarðskjálfta) til að minnka álag á símkerfi í hamförum.
Tilkynningu almannavarna í heild sinni má finna hér og frekari upplýsingar um skjálftavarnir má finna hér.