Grjót hefur hrunið úr fjöllum á Reykjanesi og hvítir gufustrókar frá jarðhitasvæðum hafa sést á svæðinu.
Veðurstofa Íslands hefur hækkað litakóða fyrir flug á Reykjanesi yfir á gult og er það samkvæmt verklagsreglum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum eftir að hættustigi var lýst yfir.
Lögreglan á Suðurnesjum fer núna um svæðið til að kanna áhrif skjálftans. Þá hefur áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar flogið yfir Reykjanes til að kanna aðstæður.
Skjálftarnir hafa fundist víða á Suðvesturhorninu og allt norður í Húnaþing og vestur á Ísafjörð. Varað er við grjóthruni á Reykjanesskaga á meðan á hrinunni stendur. Unnið er að nánari yfirferð á skjálftavirkni.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgist vel með í samvinnu við lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og Veðurstofu Íslands.