Alls hefur borist 21 tilkynning til Lyfjastofnunar vegna gruns um alvarlegar aukaverkanir af bólusetningum við Covid-19. Flestar eru vegna Pfizer bóluefnisins eða 16.
Tilkynningar vegna gruns um aukaverkanir eru nú 377 talsins. Hafa verður í huga að flestir þeirra sem hafa verið bólusettir á Íslandi eru í elstu aldurshópunum.
Af þeirri 21 alvarlegu tilkynningu sem borist hefur Lyfjastofnun varða 10 þeirra andlát. Öll þau tilvik vörðuðu aldraða einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma sem fengu Comirnaty frá BioNTech/Pfizer segir í skriflegu svari Lyfjastofnunar við spurningum blaðamanns mbl.is
Sérstök rannsókn á fyrstu fimm alvarlegu tilkynningunum var framkvæmd af embætti landlæknis líkt og fram hefur komið en tveir sérfræðingar í öldrunarlækningum með sérstaka reynslu tengda lyfjameðferð aldraðra og greiningu aukaverkana lyfja fóru ítarlega yfir sjúkraskrárgögn viðkomandi einstaklinga.
Tilgangurinn var að rýna grunnheilsufar og framvindu fyrir og eftir bólusetningu og leggja mat á hvort um tengsl við bólusetningu væri að ræða. Stuðst var við alþjóðlegt kerfi við mat á hugsanlegum orsakatengslum. Niðurstaða þeirra er að í fjórum tilvika sé ekki eða ólíklega um orsakatengsl að ræða, þ.e. aðrar skýringar voru á andláti. Í einu tilviki var ekki hægt að útiloka tengsl með vissu þótt líklega hefði andlátið verið af völdum undirliggjandi ástands segir á vef Lyfjastofnunar.
Lyfjastofnun hefur fengið 175 tilkynningar um mögulegar aukaverkanir vegna Pfizer-bóluefnisins. Af þeim eru 159 minni háttar. Tilkynningar vegna Moderna eru alls 128 talsins, þar af 3 alvarlegar. Vegna Astra-Zeneca hafa borist 74 tilkynningar um mögulegar aukaverkanir, þar af tvær alvarlegar. Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun vörðuðu þessar alvarlegu tilkynningarnar fyrir Astra-Zeneca sjúkrahúsinnlögn og þar af var um að ræða bráðaofnæmiseinkenni í öðru tilvikinu. Báðum einstaklingum er batnað.
Sjá nánar á vef Lyfjastofnunar
Í rannsókn Lyfjastofnunar á tölfræði dauðsfalla hérlendis og hvort andlát voru fleiri þessar vikur en í venjulegu árferði í þeim tilfellum þar sem fyrstu bólusetningarnar fóru fram hér á landi var ekki um aukningu að ræða en áfram verður fylgst sérstaklega með þessari tölfræði.
„Hafa ber í huga að íbúar hjúkrunarheimila landsins eru upp til hópa hrumir einstaklingar með fjölda langvinnra sjúkdóma, fjöllyfjameðferð og færniskerðingu og að meðaltali andast um 18 manns á viku í þessum hópi,“ samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun.
12.564 Íslendingar hafa nú fengið báðar bólusetningar en 7.029 hafa fengið fyrri sprautuna. Hlutfallið er langhæst í elsta aldurshópnum en 73,3% þeirra sem eru 90 ára og eldri hafa fengið báðar bólusetningar og 4,9% þá fyrri. Í aldurshópnum 80-89 ára er búið að bólusetja 28,7% í tvígang en 8,1% hefur fengið fyrri sprautuna.
Hlutfall af hverjum 100 þúsund íbúum landshluta sem hafa verið bólusettir er hæst á Austurlandi og Vestfjörðum en langlægst á höfuðborgarsvæðinu.