Almar Sigurðsson, eigandi gistiheimilisins á Lambastöðum, gefur kost á sér í fyrsta sæti á lista Vinstri-grænna í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almari.
Almar hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Vinstri-græna á síðustu árum, verið formaður svæðisfélags Vinstri-grænna í Árnessýslu, í stjórn kjördæmisráðs og sinnt formennsku í uppstillingarnefndum vegna bæði þing- og sveitarstjórnarkosninga.
Almar er búsettur á Lambastöðum í Flóahreppi en fæddur og uppalinn á Selfossi. Hann segist vilja leggja áherslu á meðal annars náttúruvernd og endurheimt starfa í ferðaþjónustu.
Ari Trausti Guðmundsson, oddviti VG í kjördæminu, hefur gefið út að hann ætli að hætta á þingi í lok kjörtímabils. Auk Almars hafa Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður, Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar og fyrrverandi þingmaður tveggja flokka, Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi og Hólmfríður Árnadóttir gefið kost á sér til að leiða listann.