Hænuskref í átt að bata

Tvær konur á miðjum aldri sem fengu Covid í upphafi …
Tvær konur á miðjum aldri sem fengu Covid í upphafi faraldursins eru enn að glíma við eftirköst, nú ári síðar. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Ása M. Ólafsdóttir, starfsmaður mannauðsdeildar CCP, smitaðist líklega í París um miðjan febrúar í fyrra, en stuttu eftir heimkomuna tók að líða yfir hana í tíma og ótíma. Settur var gangráður í Ásu en einkennin héldu áfram; hiti, þurr hósti og verkir víða um líkamann. Ása mældist fyrst neikvæð í Covid-prófi en tveimur mánuðum síðar mældist hún með sterkt mótefni við Covid.

Blaðamaður sló á þráðinn til Ásu til að heyra hvernig gengi nú þegar ár er liðið frá því hún veiktist.

Gott að komast í endurhæfingu  

„Það er akkúrat ár síðan ég fékk öll yfirliðin og lenti á hjartadeild. Í dag líður mér betur en fyrir ári en er ekki enn búin að ná mér. Bara síðast á sunnudag lá ég og gat ekki hreyft mig,“ segir Ása sem er nýkomin af Reykjalundi þar sem hún var í endurhæfingu í tvo og hálfan mánuð.

Ása þurfti að fara á Reykjalund vegna verkja og veikinda …
Ása þurfti að fara á Reykjalund vegna verkja og veikinda í kjölfar Covid. Hún óttast að verða aldrei góð. mbl.is/Ásdís

„Það var mjög gott að mörgu leyti. Þarna hitti ég fólk í sömu stöðu og ég, en það hafði ég ekki gert áður. Ég hitti fólk sem skildi hvað ég var að ganga í gegnum. Starfsfólkið hafði brennandi áhuga á okkar einkennum og var að viða að sér þekkingu um langtímaáhrif kórónuveirunnar. Prógrammið var sambland af hreyfingu, fyrirlestrum og samtölum, auk rannsókna. Staðan var tekin í byrjun og í lokin og það mældust framfarir þótt það væru engin risastökk. En það var gott að sjá að ég er að ná bata smám saman. Þetta eru hænuskref.“

Óttast enn að verða ekki góð

Ása segist hafa skráð hjá sér öll einkennin sem hún upplifði og voru þau 23 í byrjun.

„Núna síðast þegar ég tékkaði voru þau þrettán. Þannig að það er bati en maður vildi auðvitað sjá hann gerast hraðar. Titringurinn er farinn en ég er enn með ósjálfráða kippi. Minnisleysið er enn slæmt; ég er enn með svima og ógleði, lítið úthald og svefntruflanir. Og verkir í fingrum eru enn hræðilegir og vekja mig á næturnar, en eru þó ekki eins slæmir og þeir voru,“ segir Ása.  

„Ég óttast enn að verða aldrei hundrað prósent góð.“

Hitavella í marga mánuði

Inga María Leifsdóttur fór að finna fyrir flensueinkennum um svipað leyti og fyrsta opinbera smitið greindist hérlendis en hafði ekki verið í samskiptum við nokkurn sem var að koma frá áhættusvæði. Hún taldi því engar líkur á að hún væri smituð af kórónuveirunni heldur hélt þetta vera venjulega flensu. En annað kom á daginn. Inga María greindist með Covid.

Nú, ári síðar, er hún enn ekki orðin alveg góð. 

Inga María segir árið hafa tekið verulega á.
Inga María segir árið hafa tekið verulega á. Ljósmynd/Saga Siguðardóttir

Eftir á að hyggja þá sést að fólk, og ég þar meðtalin, vissi lítið um þessa veiru á þessum tíma,“ segir Inga María og segist hafa glímt við eftirköst veirunnar nánast allt síðasta ár.

„Þegar hái hitinn var búinn hélt ég að ég væri sloppin, en ég var með nokkrar kommur svo mánuðum skipti. Það var fyrst í haust að ég losnaði við hitann,“ segir hún og segir að þessari hitavellu hafi fylgt þreyta, slen og óþægindi.

Lykt af svörtum pipar

Beinverkirnir sem Inga María lýsti í fyrra viðtalinu vörðu í tæpt ár.

„Ég var daglega með beinverki í að minnsta kosti tíu mánuði, sérstaklega í útlimum, sem var auðvitað mjög lýjandi. Ég hélt alltaf að þeir hlytu að vera að fara að hverfa, en það leið og beið,“ segir Inga María og segir verkina hafa horfið fyrst nú í janúar.

Inga María segir að bragð- og lyktarskyn hafi komið aftur, en þó í breyttri mynd.

„Það ýktist dálítið upp. Ég get alls ekki borðað lamb og heldur ekki parmesan sem mér fannst sjúklega góður. Ég finn oft skrítna lykt sem hægt væri að lýsa eins og ég sé að þefa upp úr stauk af svörtum pipar.“

Sonurinn fékk Covid

„Svo þegar ég var komin aftur til vinnu í vor greindist sonur minn með Covid og veiktist mikið, þótt oft veikist krakkar ekki illa. En hann var með háan hita og mikinn hósta,“ segir Inga María og segir að ekkert í lífinu hafi brotið sig jafn mikið og þessi kórónuveiruveikindi.

„Það var aldrei hægt að rekja hvorki mitt né hans smit. Svo var svo mikið skilningsleysi á sjúkdóminum,“ segir Inga María sem nú sér loks fram á bjartari tíma.

„Mér líður betur núna og það er allt á uppleið.“

Nánar er rætt við Ásu og Ingu Maríu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert