„Eftir að hafa unnið sem sjálfboðaliði í farsóttarhúsinu hafði ég skráð mig í bakvarðasveitina af því ég er hjúkrunarfræðingur þótt ég hafi aldrei starfað sem slíkur. En ég gróf upp hjúkrunarleyfið og setti mig á listann. Það var nú kannski af því að ég er svo stjórnsöm að eðlisfari að mér fannst að þessi faraldur þyrfti á mér að halda. Er ekki annars hollt fyrir miðaldra húsmæður að henda sér aðeins í vinnuna?“ segir Helga Sverrisdóttir og hlær.
Helga var kölluð til í rakningarteymið strax um miðjan mars 2020.
„Mér leið eins og væri verið að kveðja mig í herinn. Ég var spurð hvort ég gæti komið í 100% vinnu, og líka um páskana. Ég tók vinnunni og það teygðist nú aðeins úr og ég hef verið í þessu síðan. Þessi tími hefur verið ótrúlega fróðlegur og lærdómsríkur,“ segir Helga.
„Við gátum ekki rakið alveg öll smit en næstum öll. Sum smit gátum við líka rakið seinna eftir raðgreiningum, fólk sem hafði verið á sömu stöðum en var ótengt.“
„Þegar mest var að gera voru allt að sjö hjúkrunarfræðingar á vakt og fjórir lögreglumenn og oft var fólk á vakt frá níu á morgnana til ellefu á kvöldin til að komast yfir smit dagsins. Stundum var brjálað að gera en það var líka gaman. Það gerðist auðvitað oft margt spaugilegt,“ segir hún.
„Sumir voru kannski búnir að vera með einhverjum sem þeir áttu ekkert að vera með. Fólk sem átti alveg að vita betur. Maður lenti í alls konar,“ segir Helga og segir hafa komið upp tilvik þar sem manneskja í einangrun hafi laumast til að heimsækja kærastann eða kærustu. Þá hafi fólk fengið ávítur.
„Stundum var fólk svolítið lúpulegt.“
Þau eru ófá símtölin sem Helga hefur hringt og margir sem hún hefur sent í sóttkví. Helga segir langflesta hafa sýnt mikið æðruleysi og brugðist vel við. Sum símtölin hafi þó tekið á.
„Ég skal alveg viðurkenna til dæmis að þegar ég þurfti að setja hárgreiðslukonu í sóttkví alla vikuna fyrir jól að ég var alveg að fara að gráta. Ég var að setja líf fólks gjörsamlega á hvolf og það var ekkert auðvelt. En ekkert af þessu hefur verið auðvelt,“ segir Helga og nefnir að í einstaka tilviki hafi fólk brugðist illa við.
„Það var kostur að í teyminu væru bæði hjúkrunarfræðingar og lögreglumenn því það reyndist frábær blanda. Stundum þurfti blíðar hjúkrunarfræðingsraddir og stundum ákveðnar lögregluraddir.“
„Svo var ég að vinna á aðfangadag og þurfti að setja menntaskólastrák í sóttvarnahús klukkan hálfsex. Það var ekki auðvelt fyrir mömmuhjartað.“
Helga segist í gegnum vinnuna hafa kynnst íslensku þjóðfélagi með öllu sínu litrófi. Kórónuveiran fer ekki í manngreinarálit og þurfti Helga að tala jafnt við bágstatt fólk sem þau betur efnuðu, útlendinga og Íslendinga, konur sem karla.
„Mannlífið er þarna í sinni tærustu mynd. Ég þurfti að setja bláfátæka erlenda verkamenn og fólk sem bjó við erfiðar félagslegar aðstæður í sóttkví. Og ég þurfti líka að setja forseta Íslands í sóttkví! Það eru allir jafnir gagnvart Covid,“ segir Helga.
Undanfarið hefur verið rólegt hjá Helgu, enda hefur aðeins þurft einn úr teyminu á vakt þar sem engin smit hafa greinst í vel yfir mánuð. Helga er því á bakvakt og vonar að hún þurfi ekki að snúa aftur til starfa. Hún segist munu sakna vinnufélaganna en ekki veirunnar.
„Þetta er eina starfið sem maður vonast til að verða rekinn úr,“ segir hún og bætir við að lokum: „Ég hef sjálf verið heppin og mín fjölskylda og höfum við hvorki smitast né lent í sóttkví. Mig langar ekkert að fá þetta!“
Nánar er rætt við Helgu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.