285 milljónir til mannúðaraðstoðar í Jemen

Neyð hefur verið mikil í Jemen frá því að borgarastyrjöld …
Neyð hefur verið mikil í Jemen frá því að borgarastyrjöld braust þar út fyrir átta árum. AFP

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tilkynnti í dag um 285 milljóna króna framlag Íslands til mannúðaraðstoðar í Jemen. Um er að ræða heildarframlag til þriggja ára, sem kynnt var á áheitaráðstefnu um Jemen í dag. 

Framlagið mun skiptast á milli þriggja stofnana Sameinuðu þjóðanna. Í fyrsta lagi svæðasjóð vegna Jemen hjá samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). Af 95 milljóna króna árlegu framlagi næstu þrjú árin ráðstafar UNFPA 40 milljónum, WFP 30 milljónum og svæðasjóður OCHA 25 milljónum.

Væntingar standa til þess að áheitaráðstefnan skili 3,85 milljörðum bandarískra dala, tæplega 500 milljörðum íslenskra króna. Ekki verður ljóst fyrr en í lok ráðstefnunnar undir kvöld hvort sú fjárhæð náist.

„Jemenska þjóðin er á barmi hungursneyðar sem er sú skelfilegasta sem við höfum séð í áratugi. Þörfin fyrir árangursríka, skilvirka og skipulagða fjármögnun mannúðaraðgerða í Jemen hefur því aldrei verið eins brýn,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi á ráðstefnunni fyrr í dag sem fór fram gegnum fjarfundabúnað með þátttöku rúmlega eitt hundrað fulltrúa ríkisstjórna.

Áheitaráðstefnur sem þessar hafa jafnan verið haldnar árlega frá því stríðið í Jemen hófst fyrir tæplega átta árum. Markmið þeirra er að tryggja nauðsynlegan mannúðarstuðning við óbreytta borgara í Jemen en hvergi í heiminum er neyðarástand talið alvarlegra. Um átta af hverjum tíu íbúum þurfa á mannúðaraðstoð að halda og ástandið versnar dag frá degi.

Á síðasta ári var af hálfu Íslands varið 105 milljónum íslenskra króna til mannúðarmála í Jemen, 65 milljónum var ráðstafað til UNFPA og 40 milljónum til WFP.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka