Vísindaráð almannavarna telur að færslur á yfirborði jarðar, sem gervihnattamyndir frá því í dag sýna fram á, verði best skýrðar með því að kvikugangur sé að myndast undir því svæði þar sem mesta jarðskjálftavirkni hefur verið síðustu daga.
Skjálftar geta valdið færslu á yfirborði jarðar en að mati Vísindaráðs eru þær það miklar að líklegra er að kvikugangur sé að valda opnun.
Ein mögulegra sviðsmynda ráðsins er sú að kvikuinnskot haldi áfram í nágrenni við Fagradalsfjall og í kjölfarið getur tvennt gerst: Í fyrsta lagi að hún minnki aftur og kvikan storkni en í öðru lagi að hún leiði að lokum til flæðigoss með hraunflæði, sem mun þó líklega ekki ógna byggð.
Þessar tilgátur eru á frumstigi og unnið verður betur úr gögnunum til að varpa skýrara ljósi á framvindu mála.
Fram kom á fundi Vísindaráðs í dag að sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar hefur mælt um 1.800 skjálfta frá miðnætti og eru þeir að mestu bundnir við svæði suðvestur af Keili og Trölladyngju.
Af þessum 1.800 eru 23 skjálftar að stærð 3 eða stærri og um 3 skjálftar eru 4 að stærð eða stærri. Sá stærsti frá miðnætti mældist kl. 16:35, 5,1 að stærð. Annar stór mældist klukkan hálftvö í nótt og sá var 4,9 að stærð.
Óháð því hvernig hugsanlegu kvikuinnskoti vindur fram dregur vísindaráðið einnig fram aðrar sviðsmyndir í fréttatilkynningu.
Ein þeirra er að það dragi einfaldlega úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
Önnur er að jarðskjálftahrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 6 að stærð í nágrenni við Fagradalsfjall.
Enn önnur er sú að skjálfti allt að 6,5 að stærð verði sem eigi sér upptök í Brennisteinsfjöllum.