Ná sem mestri vernd hjá viðkvæmasta hópnum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við mbl.is að ekki þurfi að fara sömu leið hér og í Bretlandi en þar er reynt að bólusetja sem flesta sem fyrst og seinni bóluefnaskammtur því gefinn þremur mánuðum seinna en sá fyrri.

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag skorar Jón Ívar Björnsson, prófessor við læknadeild Harvard, á íslensk stjórnvöld að fara þá leið sem farin hefur verið í Bretlandi.

„Ég held að það að bólusetja sem flesta sem fyrst sé mjög mikilvægt í samfélögum þar sem að veiran er mjög útbreidd og faraldurinn er í miklum gangi eins og í Bretlandi, það gildir bara annað eins og hjá okkur,“ segir Þórólfur og bætir við að það fengist klárlega betri vernd eftir tvo skammta en einn.

„Við erum með nánast ekkert innanlandssmit svo við erum betur í stakk búin heldur en margar aðrar þjóðir, okkur liggur ekki eins mikið á, við getum gert þetta aðeins öðruvísi en ef við værum með mikið smit innanlands þá þyrftum við að nota aðra nálgun á þetta,“ segir Þórólfur. 

Jón Ívar benti á í grein sinni að Pfizer-bóluefnið virðist í fyrri skammti gefa 85-90% vernd en seinni skammturinn hækki þá tölu upp í 95%.

Þórólfur segist ekki hafa séð þessar tölur staðfestar í áreiðanlegum rannsóknum og segir: 

„Menn geta haft mismunandi skoðanir á þessu en aðalástæðan fyrir því að við erum að reyna að ná sem fyrst bólusetningum í tveimur sprautum, eins og mælst er til, það er bara til að ná sem mestri vörn hjá viðkvæmasta hópnum sem við höfum verið að bólusetja fram til þessa.“

Ekki verra bóluefni

Þó er það þannig að biðin eftir seinni skammti AstraZeneca er einmitt þrír mánuðir. 

Spurður út í AstraZeneca-bóluefnið segir Þórólfur það gefa 70% vernd eftir fyrsta skammt og rúmlega 80% eftir skammt tvö sem eins og áður segir er gefinn þremur mánuðum eftir þann fyrri. Hann bendir á að hin bóluefnin gefi rúmlega 90% vernd svo það sé enginn stórkostlegur munur á þeim.

„Það er engin ástæða til að líta á það sem verra bóluefni,“ segir Þórólfur um AstraZeneca-bóluefnið. 

Það sama gildir um AstraZeneca-bóluefnið eins og önnur, ekki er hægt að fá bólusetningarvottorð fyrr en eftir seinni skammt.

Aðspurður segir Þórólfur það skrýtið ef að þessi þriggja mánaða bið eftir seinni skammti geri bóluefnið meira fráhrindandi. „Það er nú kannski skrýtið, að ef menn vilja líka geyma bólusetningarnar í þrjá mánuði, þannig þetta er svona haltu mér slepptu mér í þessu.“

Reyna að ná sem bestri vernd

Íbúar hjúkrunarheimila hafa fengið bólusetningu og nú stendur yfir bólusetning á starfsfólki heimilanna.

Þórólfur segir bólusetningu starfsfólks á hjúkrunarheimilum einmitt vera til að ná sem bestri vernd í kringum þennan hóp sem býr á hjúkrunarheimilum. En eins og áður segir er markmiðið að ná sem mestri vörn hjá viðkvæmustu hópunum.

Þórólfur bendir á að það að bólusetja starfsmenn sé aðferð til að vernda íbúana enda geti verið ástæður fyrir því að fólk sé ekki bólusett og því hafi ekki endilega allir íbúar á hjúkrunarheimilum verið bólusettir.

Fyrsta bólusetning á hjúkrunarheimili fór fram 29. desember síðastliðinn.
Fyrsta bólusetning á hjúkrunarheimili fór fram 29. desember síðastliðinn. Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka