Keilir og Trölladyngja sterkustu svæðin

Á þessari mynd má sjá hvar eldsumbrota er helst að …
Á þessari mynd má sjá hvar eldsumbrota er helst að vænta ef til eldgosa kemur í þeirri jarðskjáftahrinu er nú gengur yfir. Myndin tekur tillit til skjálfta síðustu sólahringa og undirliggjandi eldgosanæmi síðustu 10.000 ára á Reykjanesskaga. Nú eru tvö svæði sem koma fram, líklegust til að opnast. Kort/Háskóli Íslands

Líkt og fram hefur komið er ekki lengur talið útilokað að til eldsumbrota komi í kjölfar jarðskjálftahrinu sem nú gengur yfir á Reykjanesskaga. Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands endurreiknaði í dag eldsuppkomunæmi út frá skjálftum frá því á sunnudag. 

Í tilkynningu frá hópnum segir að markmiðið með greiningunni sé að reyna að spá fyrir um hvað gæti gerst ef til eldsumbrota kemur. Ekki sé verið að spá fyrir um eldgos. Greiningar hjálpi okkur að bregðast rétt við. 

Greiningin á hvar gossprungur gætu opnast á yfirborði miðað við þá jarðskjálfta sem í gangi eru og hvert hraun frá slíkum gossprungum gæti líklegast farið er kynnt á meðfylgjandi myndum. 
Hraunflæðilíkan fyrir svæðin tvö sem koma fram á fyrstu mynd. …
Hraunflæðilíkan fyrir svæðin tvö sem koma fram á fyrstu mynd. Við þessa hermun eiga sér stað eldgos með reglulegu millibili á svæðum sýndum á fyrstu mynd. Myndin sýnir líkur á því hvert hraun muni fara komi þau upp innan svæðanna. Því dekkri sem liturinn er því líklegra er að hraun renni þar um. Athygli vekur þó að mest er áhættan orðin til norðurs. Kort/Háskóli Íslands
Jarðskjálftavirknin er mest í kringum Keili og Fagradalsfjall.
Jarðskjálftavirknin er mest í kringum Keili og Fagradalsfjall. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Fyrsta mynd sýnir hvar helst er að vænta að gossprungan opnist. Nú eru komin fram tvö sterk svæði, annars vegar við Keili og hins vegar við Trölladyngju/Hlöðuvelli. Þetta er breyting á stöðunni frá síðustu greiningu. 

Á annarri mynd má sjá hver niðurstaða hraunhermilíkana er. Tekið er skýrt fram í tilkynningu að það sem myndin sýnir eru líkur á hraunrennsli frá öllum eldgosum sem eiga sér stað innan svæðanna á fyrstu mynd. Ekki er vitað hvar eldgos verður á endanum ef til þess kemur, því er látið gjósa með reglulegu millibili innan svæðanna í greiningunni. Þetta er gert vegna þess að halli í landslagi hefur áhrif á hvert hraun renna og á meðan ekki er vitað nákvæmlega hvar eldgos verður er gert ráð fyrir þeim innan alls svæðisins. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert