Samfylkingin mælist nú stærsti flokkurinn í Reykjavík með 26,4 prósenta fylgi, samkvæmt nýrri könnun Gallup. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Flokkarnir sem mynda meirihluta í Reykjavík bæta allir við sig fylgi frá kosningum. Samanlagt fylgi meirihlutans er 54,7 prósent samkvæmt könnuninni en samanlagt kjörfylgi þeirra er 46,4 prósent.
Píratar mælast með 10,5 prósent og bæta við sig tæpum þremur prósentum frá kosningum. Bæði Viðreisn og Vinstri græn mælast með 8,9 prósenta fylgi. VG fékk 4,6 prósent atkvæða í kosningunum og myndi flokkurinn bæta við sig einum borgarfulltrúa.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar einum borgarfulltrúa og mælist með 25,2 prósent sem er 5,6 prósentum undir kjörfylgi flokksins. Miðflokkurinn dalar um rúmlega eitt og hálft prósent og Flokkur fólksins fengi ekki mann kjörinn samkvæmt könnuninni og fer úr 4,3 prósentum niður í 3 prósent. Framsóknarflokkurinn bætir hins vegar við sig og fengi samkvæmt þessu einn fulltrúa.