Rafmagn komið á í Grindavík

Rafmagnslaust var í bænum í um sjö klukkustundir.
Rafmagnslaust var í bænum í um sjö klukkustundir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragmagn er komið aftur á í Grindavík. Otti Sigmarsson, björgunarsveitarmaður í bænum, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Rafmagnslaust hafði verið í bænum frá því um klukkan tvö í dag en brunninn háspennurofi er talinn ástæða bilunarinnar. 

Rafmagn komst á hluta bæjarins um klukkan sjö í kvöld, en um tveimur tímum síðar tókst að koma rafmagni á bæinn í heild.

Björgunarsveitarmenn vinna nú að því að aftengja varaaflstöðvar og fylla þær af bensíni svo þær verði tilbúnar næst þegar þarf á þeim að halda, en varaaflstöðvar hafa verið notaðar til að koma rafmagni inn á hjúkrunarheimili bæjarins og keyra fjarskiptamiðstöð Mílu í bænum.

Fyrr í kvöld var Þór, varðskip Landhelgisgæslunnar, sendur af stað til Grindavíkur þar sem skipið yrði til taks ef framleiða þyrfti varaafl fyrir hluta bæjarins. Í samtali við mbl.is segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, að skipinu verði ekki snúið við þrátt fyrir að rafmagn sé komið á.

Skipið siglir þó ekki inn í höfn heldur lónar úti fyrir Grindavík en ástæðan er sú að þröng og grunn innsigling er inn að bænum og skipið getur ekki siglt þangað nema á flóði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert