50 af spítalanum í sóttkví

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala. Morgunblaðið/Ásdís

Um 50 starfsmenn og sjúklingar á Landspítala eru í sóttkví vegna smits sem greindist hjá starfsmanni göngudeildar Landspítalans. Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar, í samtali við mbl.is


Starfsmaðurinn vinnur á göngudeild A3 í Fossvogi. Þar er starfrækt göngudeild smitsjúkdóma, lungnasjúkdóma og ofnæmislækninga auk þess sem svefnrannsóknardeild er nærliggjandi.

Starfsmaðurinn fann fyrir einkennum fyrir helgi og fór umsvifalaust í sýnatöku en fékk neikvætt út. Einkenni versnuðu á föstudag og þegar hann fór í aðra sýnatöku á laugardagsmorgun reyndist niðurstaðan jákvæð.

Már segir að smitin hafi mikil áhrif á starfsemina. „Við lokuðum göngudeildinni fram í vikuna,“ segir Már og bætir við að það hafi verið gert bæði þar sem þrífa þarf deildina hátt og lágt og vegna þess að stór hluti starfsmanna er kominn í sóttkví. „Við teljum að það sé mikilvægt að gera frekar meira en minna. Stakt smit sem kemur upp í starfsemi getur haft mikil áhrif ef það breiðist út.“

Engar niðurstöður hafa fengist enn úr sýnatöku annars starfsfólks og sjúklinga, en von er á fyrstu niðurstöðum síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert