Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gagnrýnir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra fyrir þá ákvörðun að skipta fulltrúa Viðreisnar út úr stjórn Íslandspósts. Hún segir Bjarna hafa viljað ráða því hvern Viðreisn veldi og þegar ekki var unað við það hafi honum verið skipt úr fyrir undirmann Bjarna.
Ný stjórn Íslandspósts, sem er að fullu í eigu ríkisins, var kjörin á aðalfundi félagsins á föstudag. Hefð er fyrir því að stjórnarflokkar hafi þar þrjá fulltrúa af fimm en stjórnarandstaða skipti með sér tveimur. Fulltrúar stjórnarandstöðu voru tveir, annar frá Flokki fólksins, en hinn Thomas Möller, fulltrúi Viðreisnar.
Á aðalfundinum á föstudag var ný stjórn hins vegar kosin og kemur Guðmundur Axel Hansen, sérfræðingur á skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármálaráðuneytinu, nýr inn í stjórn í stað Thomasar.
Viðskiptablaðið sagði frá því í vikunni að Bjarni Jónsson, stjórnarformaður og fulltrúi Vinstri-grænna, hefði farið þess á leit við fjármálaráðherra að hann skipti út stjórnarmönnum sem væru erfiðir og spyrðu ítrekað spurninga. Bjarni hafnaði þessu þó í samtali við mbl.is fyrir helgi og sagði stjórnina hafa unnið vel saman.
Í færslu á Facebook segir Þorgerður Katrín að Thomas hafi gegnt mikilvægu hlutverki í að bæta rekstur Íslandspósts og hagræða síðustu árin. Hann hafi sinnt stjórnarsetu af alúð, verið gagnrýninn og veitt aðhald, eins og stjórnarfólk á að gera. „Lausn fjármálaráðherra er að losa sig við þann fulltrúa minnihluta í stjórn [...] Það er staðfesting á að fjármálaráðherra hleypur undan ábyrgð,“ segir Þorgerður.
Bjarni Benediktsson hafi viljað ráða því hver fulltrúi Viðreisnar væri og þegar ekki var orðið við þeirri ósk hafi honum verið skipt út.