Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, sagði í Silfrinu í dag að enginn stjórnmálaflokkur höfði til hennar fyrir komandi kosningar, ekki einu sinni Píratar. Það geti þó breyst þegar línurnar fara að skýrast.
Það sé vegna þess að þau áherslumál sem Píratar lögðu upp með upprunalega séu komin mjög aftarlega á forgangslistann.
„Píratar höfðu mikla sérstöðu. Þeir voru með mikla áherslu á lýðræði á stafrænum tímum og voru eini flokkurinn með fólk sem hafði tækniþekkingu til að skilja hvað lagasetning getur haft mikil áhrif á okkar borgaralegu réttindi án þess að fólk sé endilega meðvitað um það,“ sagði Birgitta.
Hún sagði flokkinn nú hafa mörg góð stefnumál en hún tengdi þó ekki sérstaklega við neinn flokk.
„Mér finnst algjörlega skorta pólitíska sýn hjá svo mörgum flokkum. Það er enginn sem sker sig rosalega mikið úr og mér finnst skorta á langtímahugsun,“ sagði Birgitta.
Birgitta sagðist þó viðurkenna að hún sitji ekki og horfi á alþingisrásina. Það sé svo leiðinlegt.
„Ég vona að þessi kosningabarátta verði þannig að maður sjái skýra mynd af því hvað fólk ætli að gera eftir kosningar,“ sagði Birgitta.
„Á svona tímum þegar það eru miklar áskoranir, þá þarf fólk að stilla sig betur saman. Ég vona að þessi kosningabarátta verði þannig að við sjáum skýra mynd af því hvað fólk ætlar að gera eftir kosningar. Það er mér hjartans mál að fólk þori að stilla sig saman fyrir kosningar svo það liggi nákvæmlega fyrir hvað fólk ætlar að gera saman,“ sagði Birgitta.