„Mestu átökin eru syðst“

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri á sviði náttúruváar hjá Veðurstofunni.
Kristín Jónsdóttir, fagstjóri á sviði náttúruváar hjá Veðurstofunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sterkari og sterkari merki eru um að lóðréttur kvikugangur sé að myndast við Fagradalsfjall, en á sama tíma hefur aðeins dregið úr vaxtarhraða hans. Nú er kvikugangurinn á um 1 km dýpi þar sem hann er lengst til suðvesturs og hefur hann haldið áfram að grynnast.

„Meðan kvikugangurinn er að grynnast og það er að bætast í eru enn líkur á gosi,“ segir Kristín Jónsdóttir, fagstjóri á sviði náttúruváar hjá Veðurstofunni, í samtali við mbl.is, en fyrir stuttu lauk fundi vísindaráðs almannavarna þar sem þessi mál voru skoðuð.

Skjálftavirkni á spennusvæðum sitt hvorum megin við kvikuganginn

Kristín segir að hægt sé að líkja kvikuganginum við sár. Í miðjunni, þar sem sárið sjálft er, sé kvikugangurinn, en sitt hvorum megin við eru aum svæði, þar sem jafnframt er mest spenna. Hún segir að það sé á þessum tveimur svæðum sem miklar spennubreytingar eru sem komi fram í svokölluðum gikkskjálftum, en það eru örvaðir skjálftar sem mælast við endann á kvikuganginum. Þessir skjálftar koma fram við Þorbjörn og Grindavík til suðvesturs og við Keili og Trölladyngju í norðaustri, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Á þessari mynd er afmarkað svæði þar sem kvikugangurinn er …
Á þessari mynd er afmarkað svæði þar sem kvikugangurinn er að myndast undir jarðskorpunni. Þegar kvika flæðir inn í jarðlög og myndar kvikugang, líkt og nú á sér stað á umbrotasvæðinu milli Keilis og Fagradalsfjall, myndast þrýstingu í jarðskorpunni. Það skapar spennu austan og vestan megin við umbrotasvæðið og er líkleg skýring á þeim skjálftum sem verða þar sú að um sé að ræða svokallaða „gikkskjálfta“ sem eru merki um spennulosun en tákna ekki að kvika sé á hreyfingu á þeim svæðum sem þeir mælast. Dæmi um slíka skjálfta mátti sjá aðfaranótt sunnudags, 7. mars, þegar margir kröftugir skjálftar mældust á skömmum tíma. Kort/Vísindaráð almannavarna

Eins og staðan er núna er mest virkni í suðvesturenda kvikugangsins. „Mestu átökin eru syðst. Þar er þetta að grynnka og aukast,“ segir Kristín og bætir við að endi kvikugangsins hafi undanfarið færst 1-1,5 km í suðvestur.

Fagradalsfjall áfram „líklegasti staðurinn fyrir eldgos

Gögn sem Veðurstofan og vísindaráð vinna með eru meðal annars gps- og gervihnattamyndir sem og líkön af kvikuganginum, jarðskjálftatölur og fleira. Kristín segir að þegar þetta sé allt tekið saman fáist einföld mynd af kvikuganginum og að á þessum tímapunkti séu bara vísbendingar um að kvika sé við Fagradalsfjall. „Það er líklegasti staðurinn fyrir eldgos, syðst í þessum kvikugangi,“ segir Kristín og ítrekar að á því svæði séu mest átökin núna.

Í tilkynningu frá vísindaráði eftir fundinn í dag kemur fram að gikkskjálftarnir sjálfir tákni ekki að kvika sé á hreyfingu á þeim svæðum sem þeir mælast. Vísindaráð gerir hins vegar ráð fyrir að búast megi við því að virknin á Reykjanesskaga verði kaflaskipt næstu daga. Þá geti verið von á sambærilegum jarðskjálftahviðum og urðu um helgina á næstu dögum og vikum ef kvikugangurinn heldur áfram að myndast. Tekið er fram að kvikan sitji grunnt og áfram þurfi að gera ráð fyrir að gos geti hafist.

Fjórar sviðsmyndir líklegastar

Gefur vísindaráð upp fjórar sviðsmyndir sem áfram eru taldar líklegastar á komandi dögum og vikum:

  • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
  • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 6 að stærð í nágrenni við Fagradalsfjall
  • Skjálfti af stærð allt að 6,5 verður sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum
  • Kvikuinnskot haldi áfram í nágrenni við Fagradalsfjall:
    • Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar
    • Leiðir til flæðigoss með hraunflæði sem mun líklega ekki ógna byggð
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert