„Þetta er auðvitað áhyggjuefni en svo sem hlutir sem við bjuggum okkur undir miðað við aðstæðurnar sem við horfðum á í gær og þann fjölda sem við vorum að skima og setja í sóttkví,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Tvö smit greindust utan sóttkvíar í gær, þar af annað hjá starfsmanni Hagkaups, og segir Víðir bæði smitin tengjast landamærasmiti. Einstaklingarnir hafi ekki komið upp við smitrakningu í gær, enda muni fólk ekki alltaf eftir öllum sem það hefur hitt.
Samkvæmt raðgreiningu landamærasmitsins hafi verið um að ræða breska afbrigðið og eru allir þeir sem hafa greinst með smit sem því tengjast í sóttvarnahúsi.
Þá segir Víðir að í dag muni hópur sem fara þurfi í sóttkví stækka verulega, sem og þeir sem þurfi að skima þar í kring. „Þetta er snjóbolti sem vex aðeins núna.“
Aðspurður segir Víðir ekki endilega ástæðu til þess að herða aðgerðir eða setja tímabundið stopp á stórar samkomur, enda hafi ekkert jákvætt smit komið upp í tengslum við smitaðan tónleikagest í Hörpu í síðustu viku. „Aðalmálið er að allir vandi sig alveg sérstaklega við sóttvarnirnar, hólfaskiptingar og grímunotkun.“
Varðandi næstu daga segir Víðir að líklegt sé að fleiri finnist smitaðir. „Það fjölgar verulega í sóttkví og við erum að skima fullt af fólki sem er ekki með bein tengsl. Við erum að reyna að ná utan um þetta og náum vonandi að stoppa þetta af.“