Segist ekki senda konum kalda kveðju

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að úttekt Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara, sem hún bað hann um að inna af hendi feli ekki í sér sérstaka úttekt á rannsóknum kynferðisafbrota.

„Allt tal um að ég sé með þessu verkefni að senda konum kalda kveðju er því innantómt eins og löng upptalning hér að framan sýnir,“ segir Áslaug Arna á Facebook-síðu sinni.

Hún hefur verið harðlega gagnrýnd í dag fyrir að hafa ráðið Jón Steinar til að aðstoða ráðuneytið við að vinna að styttingu málsmeðferðartíma í refsivörslukerfinu. Meðal annars kom fram í ályktun Kvenréttindafélags Íslands og Stígamóta að Jón Steinar hafi haldið því fram í greinarskrifum að dómstólar hafi í stórum stíl látið undan kröfum um að slakað verði á sönnunarfærslu í kynferðisbrota- og barnaníðsmálum og að saklausir menn hafi verið ranglega dæmdir.

Í Facebook-færslu sinni segist Áslaug Arna hafa látið verkin tala og meðal annars beitt sér fyrir úrbótum í þágu þolenda ofbeldisbrota.

„Á þessu þingi hef ég fengið samþykkt frumvörp um umsáturseinelti og kynferðislega friðhelgi, komið að mikilvægum umbótaverkefnum eins og opnun Kvennaathvarfs á Norðurlandi og styrkingu Kvennaathvarfsins hér á höfuðborgarsvæðinu,“ skrifar hún og bætir við að fyrsta þingmannamálið hennar sem var samþykkt hafi falið í sér breytingar á lögum um nálgunarbann.

Einnig hafi hún falið réttarfarsnefnd að semja lagafrumvarp til að bæta réttarstöðu brotaþola við meðferð kynferðisbrotamála. Það komi í samráðsgátt á næstu dögum.

„Ég bað Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann og fv. hæstaréttardómara, um að vinna að úttekt á öðrum þáttum er snúa að réttarkerfinu, m.a. hvort við getum lært af löngum málsmeðferðartíma í efnahagsbrotum og hvar séu möguleikar til að stytta hann til hagsbóta fyrir alla aðila, bæði rannsóknaraðila og sakborninga. Við skulum aldrei gleyma því að sakborningar eiga líka sinn rétt. Þannig viljum við hafa það í réttarríki. Við hljótum að geta lært af úrvinnslu slíkra mála síðasta áratuginn og nýtt þann lærdóm til að bæta kerfin okkar,“ skrifar Áslaug Arna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert