Staðan sem nú er komin upp með nýjum innanlandssmitum hefur áhrif á það hvernig Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hugsar næstu tillögur um aðgerðir innanlands sem hann stefnir á að leggja fyrir heilbrigðisráðherra í vikunni. Þórólfur segir aðspurður að líta þurfi sérstaklega alvarlega á stöðuna þar sem breska afbrigðið greindist í tveimur tilfellum innanlandssmita.
Núverandi aðgerðir innanlands gilda til 17. mars en fremur vægar aðgerðir eru í gildi miðað við oft áður. Eitt innanlandssmit kórónuveiru greindist á föstudag og annað á laugardag. Tvö önnur smit greindust utan sóttkvíar í gær.
Smitin sem greindust á föstudag og laugardag eru rakin til einstaklings sem kom frá útlöndum 26. febrúar og framvísaði neikvæðri niðurstöðu úr PCR-prófi. Þá fékk viðkomandi einnig neikvæða niðurstöðu úr fyrstu skimun. Þegar kom að seinni skimun kom í ljós að hann var smitaður. Smitin sem greindust í gær eru svo tengd við smit helgarinnar.
Nú hafið þið velt fyrir ykkur hvort mögulega sé hægt að sleppa seinni skimun við komuna til landsins ef fólk skilar niðurstöðum úr PCR-prófi við komuna og fer í skimun við komuna. Í þessu tilviki greindist maðurinn ekki fyrr en í seinni skimuninni, sýnir það ekki að það væri ekki heppilegt að sleppa seinni skimuninni?
„Við erum með fleiri í þessum sporum. Það hafa fleiri komið með neikvætt PCR-vottorð og verið neikvæðir í fyrstu skimun og verið svo jákvæðir í skimun tvö. Þetta er sú þekking sem við erum að reyna að afla þegar við förum að leggja mat á það hvaða aðgerðir eiga að gilda frá 1. maí. Ég er sjálfur ekkert farinn að spá í það á þessari stundu. Í mínum huga eru þetta lóð á vogarskálarnar til að meta það,“ segir Þórólfur.
Spurður aftur hvort þetta bendi til þess að það væri ekki vænlegt að sleppa seinni skimuninni segist Þórólfur ekki vilja fullyrða neitt um það.
„Auðvitað er það þannig að sama hvað við gerum þá er aldrei hægt að koma 100% í veg fyrir smit. Það sem við gerum er að lágmarka áhættuna, það að lágmarka eitthvað þýðir að það getur gerst. Það getur náttúrlega allt gerst í þessu en við erum að reyna að hafa áhættuna eins litla og mögulegt er,“ segir Þórólfur.
Spurður hvort staðan sem nú er uppi hafi áhrif á þær tillögur um aðgerðir sem hann hyggst leggja fyrir heilbrigðisráðherra í vikunni segir Þórólfur:
„Já, það gerir það. Ef við förum að greina eitthvað meira á næstunni, ef það fara að koma einhver önnur tilfelli þá munu mínar tillögur mótast af því. Allt sem er að gerast mótar mína skoðun á því til hvaða aðgerða eigi að grípa.“
Þórólfur segist ekki tilbúinn að ræða sérstaklega hvað muni felast í tillögum hans um áframhaldandi aðgerðir innanlands vegna Covid-19.
Sá sem kom smitaður frá útlöndum var með breska afbrigði veirunnar og hið sama má segja um þau sem greindust smituð á föstudag og laugardag. Raðgreiningar er beðið hvað varðar smitin sem greindust í gær. Eins og áður hefur komið fram virðist breska afbrigðið meira smitandi en upphaflegt afbrigði veirunnar. Spurður hvort líta þurfi ástandið alvarlegri augum í því ljósi að innanlandssmitin séu af breska afbrigðinu runnin segir Þórólfur:
„Ég held að við þurfum að gera það. Ég held að þetta sýni hve viðkvæmt þetta er þótt við séum að gera mjög mikið. Sumum finnst við vera að gera allt of mikið á landamærunum en ég er ekki sammála því. Við erum að reyna að skapa tiltölulega afslappað umhverfi hér innanlands. Við erum náttúrlega í þeirri hættu að ef við missum smit og ef röð óheppilegra atvika endurtekur sig getum við fengið mikla útbreiðslu einn, tveir og þrír. Þá er mjög erfitt að eiga við það með rakningu, einangrun og svo framvegis. Þess vegna erum við að reyna núna að kæfa þetta strax í byrjun eins og hægt er.“
Sá sem greindist smitaður á föstudag sótti tónleika í Hörpu á föstudag þar sem 800 manns komu saman. Fleiri stórir tónleikar hafa verið haldnir í Hörpu síðan þá og eru tónleikar áætlaðir í kvöld. Spurður hvort það sé forsvaranlegt í ljósi þeirra innanlandssmita sem hafa greinst síðustu daga segir Þórólfur:
„Við erum þarna með þennan afmarkaða hóp þar sem smit hefur greinst. Ég held að við séum ekki með smit sem við getum ekki rakið saman við önnur smit. Ef það væri þannig og það væru að koma upp slík smit myndi það horfa allt öðruvísi við. Ég er ekki viss um að áhættan sé endilega það mikil núna eins og staðan er en vissulega þurfum við að vera á tánum.“