Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ánægjulegt að engin innanlandssmit kórónuveiru hafi greinst í gær. Hann bendir þó á að það taki nokkra daga fyrir smit að verða greinanleg og því sé ekki hægt að fullyrða að búið sé að ná alveg utan um smitin. Þá segir Þórólfur ekki þörf á hörðum aðgerðum sem stendur.
„Það er bara ánægjulegt en við þurfum náttúrlega að halda áfram að sjá hvað gerist núna næstu daga. Það tekur alltaf ákveðinn tíma fyrir smitið að verða greinanlegt,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is, spurður um smitleysi gærdagsins.
Nokkur innanlandssmit hafa greinst síðustu daga og eru þau öll af breska afbrigðinu sem er talið bráðsmitandi.
Eruð þið búin að ná utan um smitin?
„Það er ekkert hægt að fullyrða mjög sterkt um það. Eftir því sem fleiri dagar líða og við fáum engin smit getum við styrkst í þeirri trú að það verði ekki frekari útbreiðsla,“ segir Þórólfur.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í samtali við Vísi í gær að skynsamlegt væri að „grípa strax í taumana“ og fara í harðar aðgerðir í nokkra daga. Þórólfur telur ekki þörf á því sem stendur.
„Ekki nema við förum að sjá einhverja meiri útbreiðslu. Eins og staðan er núna höfum við gott yfirlit yfir umfangið. Við vitum hvar smitið kom inn, við vitum hverjir hafa smitast þar í kring. Við erum búin að skima mjög mikið í kringum þetta fólk og höfum ekki fengið neitt út úr því. Þetta fólk er í sóttkví með ströngum leiðbeiningum. Ég held að við séum að gera þetta eins strangt og víðtækt og mögulegt er. Ég held að við munum láta það duga í bili. Mér finnst ekki ástæða til að vera að loka eitthvað meira úti í samfélaginu,“ segir Þórólfur.
Tvö landamærasmit greindust í gær, annað í seinni skimun. Þórólfur segir ekki ástæðu til annars en að telja að sá sem greindist í seinni skimun hafi haldið sína sóttkví og því ekki útsett aðra fyrir smiti.