Kvikugangurinn heldur áfram að stækka og er mesta kvikuflæðið bundið við suðurenda hans sem nær frá Keili að Fagradalsfjalli. Á meðan kvika heldur áfram að flæða inn í ganginn þarf að reikna með að það geti gosið á svæðinu.
Eftir því sem núverandi ástand stendur lengur aukast líkur á gosi. Afar litlar líkur eru á því að slíkt gos nái í byggð. Þetta kom fram á fundi vísindaráðs almannavarna í dag.
Mikilvægt að fylgjast náið með virkninni í suðurhlíðum Fagradalsfjalls til að sjá hvort að þessi virkni er vísbending um að kvikugangurinn sé að stækka í suður.
Ef kvikugangurinn heldur áfram að stækka og valda spennu á svæðinu, má eiga von á skjálftum sem finnast í byggð, sambærilegum þeim sem orðið hafa síðustu sólarhringana.
Eins og staðan er metin núna situr kvikan mjög grunnt, á 1-1.5 km dýpi.
„Það er mikilvægt að átta sig á því að ef kvika brýtur sér leið alla leið upp á yfirborðið þá má búast við að það gæti gerst án mikilli átaka eða skjálftavirkni. Dæmi um slíkt má sjá í gosinu sem hófst á Fimmvörðuhálsi árið 2010,“ segir í tilkynningu.
„Þá sáust ekki skýr merki um upphaf goss á mælitækjum Veðurstofunnar og voru það fréttir frá sjónarvottum sem staðfestu að kvika væri komin upp. Í þessu ljósi hefur Veðurstofan sett upp vefmyndavélar sem hægt er að notast við til að fylgjast með því ef kvika kemur upp.“