„Þetta hefur gengið vel fyrir utan fréttirnar í morgun,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þegar hún er spurð hvernig bólusetning gegn Covid-19 gangi og hvaða áhrif fréttir af tímabundinni stöðvun á notkun bóluefni AstraZeneca hafi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna í morgun að ákveðið hefði verið að stöðva notkun bóluefnis AstraZeneca tímabundið eftir að það var gert í nokkrum löndum Evrópu.
Er það gert til að gæta fyllsta öryggis eftir að tilkynnt var um blóðtappa sem alvarlega aukaverkun bólusetningarinnar, meðal annars í Danmörku. Þórólfur benti á að Lyfjastofnun Evrópu telji ekki orsakasamhengi á milli blóðtappanna og bóluefnisins en málið sé í nánari skoðun og von sé á frekari upplýsingum frá Lyfjastofnuninni.
„Við vorum búin að skipuleggja stóran dag á miðvikudaginn næsta sem átti að fara í AstraZeneca. Þá ætluðum við að byrja á fólki með undirliggjandi sjúkdóma en það er allt í bið þar til við vitum meira. Við bíðum bara átekta eftir því hvað sóttvarnalæknir gerir,“ segir Ragnheiður en ljóst er að þetta mun riðla skipulagi bólusetninga.
Ragnheiður bendir á að bóluefni AstraZeneca hafi verið um helmingurinn af efninu sem notað hefur verið hér á landi og hún vonast til þess að eingöngu sé um tímabundna stöðvun að ræða.
Ekki liggur mikið af ónotuðu bóluefni AstraZeneca á lager en sendingar af efninu hafa borist vikulega.
„Næsta miðvikudag áttum við von á því að vinna með 2.000 skammta frá AstraZeneca og 2.000 skammta frá Pfizer þannig að það verður mikil skerðing ef við getum ekki notað AstraZeneca í næstu viku,“ segir Ragnheiður en búið var að senda boð á einhvern hóp fólks sem átti að fá bóluefni AstraZeneca í næstu viku.
„Þetta er svekkjandi og setur okkur í biðstöðu.“